Háskólabrú hefur undanfarin ár markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Nám á Háskólabrú hefur gefið fjölda fólks nýtt tækifæri til náms og hafa flestir útskrifaðir nemendur hafið háskólanám að náminu loknu, við góðan orðstír. Hægt er að stunda nám á Háskólabrú í staðnámi, fjarnámi, með vinnu og með undirbúningi.
Saga Háskólabrúar
Fyrstu nemendur Háskólabrúar Keilis hófu nám haustið 2007 en skólinn starfar í samstarfi við Háskóla Íslands. Að uppfylltum inntökuskilyrðum tekur nám á Háskólabrú í staðnámi og í fullu fjarnámi tvær til þrjár annir en fjórar annir í fjarnámi með vinnu, en lengd námsins fer eftir því hvaða deild er valin.
Haustið 2008 skrifaði Keilir og Háskóli Íslands undir samning þess eðlis að próf á Háskólabrú skuli samkvæmt samningnum almennt teljast sambærilegt stúdentsprófi og veitir inngöngu í þær deildir sem vísa í svið innan Háskóla Íslands. Þá hafa margir útskrifaðir nemendur einnig sótt nám í öðrum háskólum hérlendis og erlendis en eftir þeirra inntökuskilyrðum hverju sinni.
Markmiðið með Háskólabrú er að nemendur okkar séu vel undirbúnir til að takast á við krefjandi háskólanám. Hluti af gæðastarfi okkar felst í að fylgjast með gengi útskrifaðra nemenda okkar í háskóla. Frá upphafi höfum við gert kannanir meðal þeirra m.a hvernig nemendur telja sig vera undirbúna fyrir háskólanám. Flestir útskriftarnemenda okkar hefja háskólanám og um 80% þeirra telja sig vera vel undirbúna í háskóla sem rímar við niðurstöður könnunar Háskóla Íslands á gengi nýnema framhaldsskólanna þar sem að Háskólabrú Keilis er í fjórða sæti yfir þá nemendur sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám. Þessar niðurstöður eru okkur mikilvægar en gæðastarfi er aldrei lokið heldur hvetur okkur áfram til þess að gera gott nám enn betra.
Fyrirkomulag náms
Háskólabrú býður upp á nám í fjórum deildum sem að vísa í svið Háskóla Íslands. Hægt er að stunda námið í fullu námi og tekur þá eitt til eitt og hálft ár eða hálfu námi og tekur þá að jafnaði tvö ár. Nám á háskólabrú er lotunám og skiptist hver önn í þrjár lotur bæði í staðnámi og fjarnámi.
Deildir:
- Félagsvísinda- og lagadeild, viðskipta- og hagfræðideild og hugvísindadeild skiptist í tvær annir í fullu námi en fjórar í hálfu námi.
- Verk- og raunvísindadeild skiptist í þrjár annir í fullu námi. Mögulegt er að ljúka náminu á tveimur önnum í samráði við námsráðgjafa namsradgjafi(a)keilir.net eða verkefnastjóra haskolabru(a)keilir.net . Einnig er í boði nám með vinnu skipulagt á fjórar annir.
Tölvu- og upplýsingamál
Fartölvur eru notaðar í námi á Háskólabrú. Nemendur fá nýjasta Office pakkann við komuna í skólann, vert er að benda á að í upplýsingatækni er kennt á Office umhverfið í PC tölvum og því eru þær tölvur hentugri til námsins. Þeir sem ætla sér að nota Apple tölvur þurfa að gera ráð fyrir því að verkefni geti verið tímafrekari í vinnslu en með PC.