Þann 26. ágúst tók þrjátíu og einn nýnemi við Háskóla Íslands við styrkjum úr Afreks- og hvatningasjóði stúdenta við hátíðlega athöfn í Aðalbyggingu Háskólans. Afreks- og hvatningarsjóðurinn hefur frá árinu 2008 veitt styrki til nýnema sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs eða aðfaranámi að háskóla og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig vel í námi. Styrkupphæð hvers og eins nemur 375 þúsund krónum og eru styrkirnir veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands.
Að þessu sinni var það nýútskrifaður nemandi af Háskólabrú sem var einn þeirra sem hlaut styrk. Nazi Hadia Rahmani, sem er kölluð Hadia, lauk aðfaranámi frá Háskólabrú Keilis í vor en hún hafði áður lokið framhaldsskóla og einu ári í háskóla áður en hún flúði til Íslands frá Afganistan þegar Talibanar brutust til valda. Hadia flutti til Íslands fyrir um þremur árum síðan og hóf fljótlega að stunda íslenskunám. Þegar hún hafði náð ágætum tökum á málinu var hún hvött áfram í næsta skerf sem var að hefja nám í Menntastoðum hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum. Þegar því lauk var ekki aftur snúið og Hadia hóf staðnám á Háskólabrú sem hún kláraði síðastliðið vor. Það má því með sanni segja að Hadia hefur sýnt dugnað og þor að skrá sig í nám í nýju landi og ljúka því eins og raun ber vitni. Næsta skref Hadiu var því að skrá sig í háskólanám og dreymir um að vinna sem lögfræðingur á Íslandi, helst við að aðstoða fólk, og hefur því innritast í lögfræði við Háskóla Íslands.
Við óskum Hadiu innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu og óskum henni alls hins besta í framtíðinni.