20.06.2014
Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 150 nemendur við hátíðlega athöfn í Andrews Theater á Ásbrú föstudaginn 20. júní.
Í útskriftarræðu sinni vék Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis, að tengslum frelsis og ábyrgðar. Við útskrift hefðu nemendur öðlast tiltekið frelsi og það væri undir þeim komið hvernig þeir nýttu frelsi menntunarinnar. Þá þakkaði hann sérstaklega Hlíf Böðvarsdóttur sem hefur kennt frá upphafi við Háskólabrú við miklar vinsældir og Kári Kárason, flugstjóri, var heiðraður sérstaklega fyrir að byggja upp Flugakademíu Keilis.
Háskólabrú Keilis útskrifaði í allt 71 nemanda úr fjórum deildum: Félagsvísinda- og lagadeild; Hugvísindadeild; Verk- og raunvísindadeild; og Viðskipta- og hagfræðideild. Soffía Waag deildarstjóri Háskólabrúar flutti ávarp. Dúx var Ágúst Þór Birnuson með 9,21 í meðaleinkunn, og hlaut hann að gjöf bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili. Elva Björk Guðmundsdóttir flutti ræðu útskriftarnema.
14 nemendur luku atvinnuflugmannsprófi frá Flugakademíu Keilis. Tómas Beck, skólastjóri Flugakademíunnar flutti ávarp, Christina Birgitta Thisner fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í atvinnuflugmannsnámi með 9,71 í meðaleinkunn og fékk hún bókagjafir frá Icelandair og Isavia. Magnús Þormar flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis.
47 nemendur útskrifuðust frá Íþróttaakademíu Keilis, 37 einkaþjálfarar og 10 styrktarþjálfarar. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp, Sigríður Bjarney Guðnadóttir fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með 9,62 í meðaleinkunn og Arna Hjartardóttir í ÍAK styrktarþjálfun með 8,98 í meðaleinkunn. Fengu þær íþróttaskó frá Sporthúsinu í Reykjanesbæ. Inga Rún Guðjónsdóttir flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis.
Fyrsti hópur leiðsögumanna í ævintýraferðamennsku brautskráðist á vegum Keilis og Thompson Rivers University í Kanada. Er þetta jafnframt í fyrsta skipti sem Keilir brautskráir nemendur á vegum erlends háskóla. Við athöfnina fengu 13 nemendur staðfestingu á að hafa lokið átta mánaða háskólanámi í ævintýraferðamennsku (Adventure Sport Certificate). Ragnar Þór Þrastarson, verkefnastjóri námsbrautarinnar flutti ávarp. Ástvaldur Helgi Gylfason fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 8,87 í meðaleinkunn og fékk hann bakpoka frá GG sjósport. Þá fékk Erlingur Geirsson viðurkenningu fyrir góðar framfarir í námi og fékk hann útivistarjakka frá Útilíf. Ræðu útskriftarnema fyrir hönd ævintýraleiðsögunáms flutti Orri Sigurjónsson.
Þá fór fram brautskráning kandídata í tæknifræðinámi Keilis, sem heyrir undir Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Þetta er í þriðja skipti sem Háskóli Íslands útskrifar nemendur með BSc-gráðu í tæknifræði og brautskráðust í ár fimm nemendur af tveimur brautum, orku- og umhverfistæknifræði og mekatróník hátæknifræði.
Helgi Þorbergsson, starfandi deildarforseti Rafmagns- og töluverkfræðideildar Háskóla Íslands og Sverrir Guðmundsson forstöðumaður tæknifræðinámsins afhentu prófskírteini. Önundur Jónasson, formaður Tæknifræðingafélags Íslands flutti ávarp og veitti Sigurði Erni Hreindal viðurkenningu fyrir áhugavert og vel unnið verkefni um hönnun á nýrri nálavindivél í netagerð. Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri Kadeco - Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, veitti Karl Inga Guðnasyni viðurkenningu fyrir bestan námsárangur, en hann var með 8,74 í meðaleinkunn. Þá fékk Karl Ingi Eyjólfsson viðurkenningur frá Heklunni - Atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja fyrir framúrskarandi vinnu og frágang á lokaverkefni. Þakklætisgjöf fyrir góð störf í þágu skólans hlaut Karl Guðni Garðarsson.
Nærri tvö þúsund einstaklingar hafa útskrifast frá stofnun Keilis árið 2007. Mikill fjöldi umsókna hefur borist um nám í Keili fyrir haustið 2014. Mesta aukningin er í Flugakademíu Keilis þar sem ríflega helmingi fleiri umsóknir eru um flugnám en á sama tíma í fyrra, en það var einnig metár hjá Flugakademíunni. Þá hafa einnig borist fjöldi umsókna í leiðsögunám í ævintýraferðamennsku og einkaþjálfaranám Íþróttaakademíu Keilis. Sem fyrr eru flestir umsækjendur um nám í Háskólabrú Keilis, en að jafnaði stunda um tvö hundruð einstaklingar staðnám og fjarnám í Háskólabrú á ári hverju, auk þess sem boðið hefur upp á námið á Akureyri í samstarfi við SÍMEY undanfarin þrjú ár. Enn er hægt að sækja um nám í flestum deildum Keilis.