Fara í efni

Aðalfundur Keilis

Aðalfundur Keilis var haldinn föstudaginn 18. mars í hinu nýja húsnæði Keilis.

Aðalfundur Keilis var haldinn föstudaginn 18. mars í hinu nýja húsnæði Keilis.

Í ræðu stjórnarformanns, Árna Sigfússonar, kom fram að rekstur Keilis á síðasta ári hefði verið í jafnvægi í fyrsta sinn frá stofnun.  Gerðist það þrátt fyrir þá staðreynd að Keilir fengi lægri fjárveitingar frá hinu opinbera en aðrir skólar.  Það væri hins vegar gleðiefni að nú hillti undir að fylgt yrði eftir samþykkt ríkistjórnarinnar frá fundi hennar á Suðurnesjum og Keilir kæmist á sama stað og sambærilegir skólar varðandi fjárveitingar ríkisvaldsins. 

Í máli Árna koma fram að á þeim tæpu fjórum árum, sem liðin væru frá stofnun, hefðu 728 manns fengið prófskírteini frá Keili.  Um helmingur þeirra er af Suðurnesjum og rúmur helmingur með próf á Háskólabrú.  Hátt í 90% nemenda af Háskólabrú væri nú í háskólanámi.  Keilir hefði svo sannarlega haft áhrif á samfélagið.  Þakkaði Árni síðan félögum sínum í stjórn, einkum Baldri Guðmundssyni er nú hverfur úr stjórninni.  Þá þakkaði stjórnarformaðurinn sérstaklega starfsfólki Keilis fyrir störf sín í þágu félagsins.

Í máli framkvæmdastjóra, Hjálmars Árnasonar, kom m.a. fram að tekjur Keilis hefðu aukist á síðasta ári um rúmar 100 milljónir en útgjöld dregist saman um þrjár milljónir.  Byggðist sá árangur einkum á vaxandi fjölda nemenda, auknum flugtímum, verkefnastyrkjum og óeigingjarnri vinnu starfsmanna.  Miklar vonir eru bundnar við samning við Menntamálaráðuneytið um nemendaígildi.  Meginstoðir Keilis eru fjórar, Háskólabrú, Flugakademía, Heilsuskóli og Orku- og tækniskólinn.  Þá má segja að til viðbótar bætist ráðstefnuhald og rannsóknarstarfssemi sem aukist hefur til muna.  Keilir heldur áfram að þróa nýjar námsbrautir þar sem þörf er fyrir atvinnulífið og göt í menntakerfinu.

Stjórnin var endurkjörin utan hvað Einar Hannesson kemur inn í stað Baldurs Guðmundssonar.  Formaður stjórnar verður áfram Árni Sigfússon, bæjarstjóri og varaformaður Jón Atli Benediktsson frá Háskóla Íslands.

Í lokin kvaddi Kjartan Eiríksson sér hljóðs og færði starfsfólki Keilis að gjöf fallega ljósmynd af fjallinu Keili frá starfsfólki Þróunarfélagsins en  á milli þessar félaga er náið samstarf um uppbyggingu nýsköpunarþorpsins á Ásbrú.  Á meðfylgjandi ljósmynd tekur Hjálmar Árnason við myndinni úr höndum Kjartans Eirikssonar.