Fara í efni

Aðalfundur Keilis 2018

Aðalfundur Keilis verður haldinn kl. 13:30 þriðjudaginn 8. maí í aðalbyggingu skólans að Grænásbraut 910 á Ásbrú í Reykjanesbæ. Hefðbundin aðalfundarstörf. Allir velkomnir. Ársskýrsla Keilis 2017 [PDF]
 

Ávarp framkvæmdastjóra Keilis

Margir halda því fram að innan fárra ára muni meira en helmingur starfa, sem nú eru til, hverfa vegna tækniþróunar. Einhver ný störf þurfi því að koma í stað hinna „gömlu“. Þetta þýðir í raun að ungt fólk, sem er að hefja skólagöngu í dag, sé að undirbúa sig fyrir störf sem ekki eru til í dag. Óvissa um framtíðina er, sem sagt, óljósari en nokkru sinni.

Hvernig hefur skólakerfið brugðist við þessu? Því miður, verður að segja að kerfið sé í besta falli að undirbúa nemendur undir þátttöku í samfélagi dagsins í dag en að óverulegu leyti sé einhver framtíðarsýn höfð að leiðarljósi. Afleiðingin á eftir að draga dilk á eftir sér en við sjáum þegar ýmis miður góð teikn. Þar má nefna ólæsi ungra drengja, hátt brottfall í framhaldsskólum og að strákar eru innan við 40% umsókna í háskólanám.

Hvað veldur? Þarna kemur ugglaust margt til. Í tíu ár hefur Keilir reynt að svara kalli tímans. Strax í upphafi var Keili ætlað að sinna götum í menntakerfinu. Má segja að þær holur séu ekki færri en í gatnakerfinu. 

Við höfum reynt að svara kallinu í megindráttum með fernum hætti: 

  1. Með Háskólabrú höfum við reynt að höfða til brottfallshópsins. Um 1.600 ánægðir viðskiptavinir af þeirri brú á tíu árum benda til að þokkalega hafi til tekist. Flestir þeirra hafa sótt sér háskólanám í framhaldinu. Menntastig á Suðurnesjum hefur hækkað verulega á síðustu tíu árum. 
  2. Við höfum reynt að svara kalli atvinnulífsins með stofnun námsbrauta sem ekki hefur verið sinnt af nægum krafti. Aðsókn í þær og viðtökur atvinnulífs benda til að þörfin hafi verið til staðar.
  3. Kennsluhættir hafa lítið breyst í skólakerfinu í aldir. Keilir er leiðandi í að kynna og taka upp nýja kennsluhætti. Þar trónir efst vendinámið (flippið) og endurröðun í kennslustofur. Ánægja nemenda styður þær breytingar. 
  4. Keilir hefur fetað sig inn á þær brautir að vinna með einstökum fyrirtækjum í endurmenntun þar sem reynsla okkar af fjarnámi og flippinu nýtist vel. Þannig styrkjum við tengslin enn frekar við atvinnulífið.

Eftir tíu ára uppbyggingarstarf finnst okkur margt hafa gengið vel en óþarflega hægt. Ótrúleg orka fer að óþörfu í að glíma við einstaklega svifaseint og þunglamalegt kerfi – kerfi miðstýringar og tregðu. Undirritaður leyfir sér að halda því fram að þetta miðstýrða kerfi sé ein meginorsök vanda skólanna. Tilhneigingin er sú að steypa sem flesta í sama mót. Ákvarðanataka er miðstýrð og svifasein og drepur smám saman frumkvæðiskraft.

Undirritaður leyfir sér að varpa þeirri hugmynd fram að hverjum skóla verði gefið frjálst að kenna það sem honum sýnist. Strax munu margir spyrja um eftirlitsþátt og gæði. Svarið við því er einfalt. Skólum, sem slaka á kröfum og gæðum, verður einfaldlega ýtt til hliðar af viðtökuaðilum (háskólum eða atvinnulífi). 

Skóli, sem ekki útskrifar nemendur með nægan undirbúning, fær einfaldlega ekki viðurkenningu háskóla. Sama á við um atvinnulífið. Slíkt aðhald yrði hverjum skóla nóg. Þeir yrðu að vanda sig en yrðu sjálfdauðir ella. Hið opinbera getur svo gert alls kyns mælingar og skoðun á hvernig til hafi tekist.

Menntasproti ársins 2017 

Í byrjun ársins var Keilir valinn Menntasproti ársins árið 2017 af aðiladarfélögum Samtaka atvinnulífsins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin á menntadegi atvinnulífsins. Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Keilir hafi lyft grettistaki, innleitt nýjar hugmyndir og kennsluhætti og lagt sig fram um að hlusta á þarfir atvinnulífsins og mennta starfsfólk sem eftirspurn er eftir þegar námi lýkur. Keilir hefur frá stofnun reynt að fara nýjar leiðir við að bjóða fólki menntaúrræði og var þessi viðurkenning frá Samtökum atvinnulífsins hvatning til frekari dáða.

Bjart framundan hjá Keili

Á stjórnarfundi Keilis þann 4. maí 2018 var samþykkt rammasamkomulag um uppgjör á kaupsamningi milli Keilis og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Í kjölfarið undirrituðu stjórnarformenn Keilis og Kadeco samkomulagið sem felur í sér varanlega lausn á húsnæðisskuld Keilis og skapar skólanum mun sterkari fjárhagsstöðu til framtíðar. 

Skólastarf þarf að vera lifandi og skemmtilegt. Skóli þarf að geta brugðist hratt við breytingum í krefjandi samfélagi. Glíma við miðstýrt og þunglamalegt kerfi dregur úr starfsgleði. Starfsfólks Keilis hefur reynt að halda gleði sinni og starfsmetnaði með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Fyrir það bera að þakka óendanlega.

Þá vil ég þakka stjórn Keilis fyrir mjög ánægjulegt samstarf – ekki síst stjórnarformanni, Árna Sigfússyni, sem hefur gegn því hlutverki frá upphafi.  Hvatning hans og óbilandi trú á verkefninu hefur reynst okkur, starfsfólki, uppspretta krafta og starfsgleði. Fyrr hönd alls starfsfólks þökkum við Árna árangursríkt samstarf og óskum honum allra heilla í framtíðinni.


Hjálmar Árnason,
framkvæmdastjóri Keili