Um þessar mundir ríkir talsverð óvissa vegna jarðhræringa og eldvirkni í/við Grindavík. Almannavarnir hafa komið því skýrt á framfæri að staðan er alvarleg og hefur það þegar haft mikil áhrif á daglegt líf þeirra sem þar eiga búsetu. Í hópi Grindvíkinga má finna marga nemendur Keilis svo og starfsfólk Keilis – auk þess að Keilisfólk á nákomna sem búsettir eru í Grindavík. Áhrifin teygja sig því víða innan skólans okkar.
Með tilliti til skólastarfs í Keili verður lögð áhersla á að koma til móts við aðila úr Grindavík með stuðningi og/eða sveigjanleika eftir atvikum. Viðbragðsteymi innanhúss heldur utan um stöðuna er varðar okkar nemendur og í morgun var unnið að því að tryggja virk samskipti við alla hlutaðeigandi og upplýsingagjöf til allra nemenda og starfsfólks. Engin röskun er á skólastarfi heilt yfir á þessari stundu.
Við minnum á netföng námsráðgjafa, forstöðumanna og teymisstjóra á vefnum okkar. Leita má til þeirra vegna frekari spurninga eða vangavelta um stöðuna. Búast má við frekari upplýsingagjöf til nemenda í tölvupósti á skólanetföng á næstu vikum m.t.t. framvindu mála.
Hugur okkar og hjörtu eru með Grindvíkingum.