Alexandra Tómasdóttir hefur verið ráðin markaðsstjóri Keilis, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs og hefur hún þegar hafið störf. Undir Keili eru starfandi fjórir skólar; Háskólabrú, Heilsuakademía, Flugakademía Íslands og Menntaskólinn á Ásbrú. Alexandra mun leiða markaðsstarf skólanna og stýra þróun vörumerkjanna til framtíðar.
Alexandra hefur starfað sem markaðsstjóri Flugakademíu Íslands síðan í apríl á þessu ári og tekur við stöðu markaðsstjóra Keilis af Arnbirni Ólafssyni, sem sinnt hafði starfinu síðustu 12 ár.
Alexandra býr yfir mikilli reynslu og menntun á sviði markaðsmála og kom hún til Flugakademíu Íslands frá Private Travel Iceland þar sem hún sinnti stöðu markaðsstjóra frá árinu 2016. Hún er með BS í Business Administration með áherslu á markaðsfræði frá Auburn University Montgomery og MS í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.
,,Eftir að hafa unnið innan raða Keilis sem markaðsstjóri Flugakademíu Íslands hef ég fengið að kynnast því hversu frábært starf á sér stað hérna alla daga. Með okkar fjölbreytta námsframboði, nýstárlegu kennsluháttum, frábæru aðstöðu og öfluga mannauði hlakka ég mikið til að leiða markaðsstarf Keilis og leggja mitt að mörkum í áframhaldandi uppbyggingu Keilis” er haft eftir Alexöndru.
Nanna Kristjana, framkvæmdastjóri Keilis: ,,Alexandra er framúrskarandi markaðsmanneskja og hefur verið öflugur markaðsstjóri Flugakademíu Íslands á árinu. Færni hennar hefur vakið athygli framkvæmdastjórnar og það er mikil ánægja með það að Alexandra víkki út starfssvið sitt og leiði markaðsstörf Keilis í heild sinni. Hún kemur til okkar með frábæra reynslu og þekkingu sem ég er ekki í nokkrum vafa um að eigi eftir að styrkja okkur enn frekar í þeim verkefnum sem framundan eru.“
Við bjóðum Alexöndru hjartanlega velkomna til starfa sem nýjan markaðsstjóra og óskum henni velfarnaðar í nýju starfi innan Keilis.