Fara í efni

Allt kennsluefni í stærðfræði á unglingastigi komið á netið

Heiðarskóli í Reykjanesbæ
Heiðarskóli í Reykjanesbæ
Menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, opnaði formlega vefsíðu á skólaþingi Heiðarskóla í Reykjanesbæ laugardaginn 15. nóvember, þar sem tekið er saman allt kennsluefni í stærðfræði á unglingastigi. Kennsluefnið var unnið af stærðfræðikennurum í Heiðarskóla og er seinasta viðbótin við samantekt stafrænna verkfæra sem tekin eru saman á vef Námsgagnastofnunar. Áður hafði verið unnið sambærilegt námsefni fyrir náttúrufræðigreinar og íslensku. 
 
Haustið 2013 undirrituðu Keilir og Heiðarskóli samning um að allt efni í stærðfræði 8. - 10. bekkja yrði tekið og vistað á netinu sem liður í átaksverkefni styrkt af Þróunarsjóði námsganga, Reykjanesbæ og Keili, um þróun vendináms. Með vendinámi (speglaðri kennslu) er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við þar sem fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu. Með tilkomu hinnar nýju leiðar geta nemendur hlustað heima á kennara fjalla um efnið eins oft og þeir vilja og þegar þeir vilja. Þannig koma nemendur undirbúnir í skólann þar sem þeir taka til við að vinna verkefni. Þarna er sem sagt hlutverkum snúið við, þar sem heimanámið er fært inn í skólana og rödd kennarans fer með nemandanum heim. Þetta er í raun bylting í kennsluháttum og er Ísland fyrsta landið til að taka heila kennslugrein fyrir heilu árgangana og bjóða nemendum sínum, segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis.
 
Óhætt er að segja að mikill áhugi skólafólks sé á að laga lærdómsferlið betur að nútímanum. Vendinám virðist geta þjónað þeim markmiðum vel og Ísland er sannarlega í forystu með þetta skemmtilega form á námi og kennslu.
 
Keilir leiðir Evrópuverkefni í vendinámi
 
Keilir hlaut á dögunum rúmlega þrjátíu milljóna króna styrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins til þróunar á handbókum um innleiðingu vendináms í skólum. Verkefnið er til tveggja ára og nefnist ?FLIP - Flipped Learning in Praxis?. Markmið verkefnisins er að þróa verklagsviðmið um innleiðingu vendináms í skólum þar sem upplýsingatækni er notuð til að auðga námsumhverfi nemenda. 
 
Áhersla er lögð á vendinám í litlum og sérhæfðum skólum, sem og starfs- og iðngreinar. Einkum verður leitast við að afmarka og gera grein fyrir þeim þáttum í innleiðingarferli sem stuðla að árangursríkri notkun upplýsingatækni, einstaklingsmiðuðu námsumhverfi, og verkefnamiðuðu námi. Afurðir verkefnisins eru handbækur fyrir kennara sem vilja innleiða vendinám, samantekt á fyrirmyndarverkefnum og bestu starfsvenjum í vendinámi, og uppsetning á opnum gagnagrunni þar sem aðilar geta deilt efni sem tengist innleiðingu og utanumhaldi vendináms.
 
Meðal samstarfsaðila verkefnisins eru Mentor, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, University of London - Institute of Education og fyrirtækið sofatutor í Þýskalandi sem sérhæfir sig í skemmtilegum og hnitmiðuðum upptökum á kennsluefni. Auk þeirra koma samstarfsaðilar frá Noregi, Ítalíu og Slóveníu.
 
Alþjóðleg ráðstefna um vendinám í apríl 2015
 
Í tengslum við FLIP verkefnið verður haldin alþjóðleg ráðstefna í Keili um innleiðingu og notkun vendináms 14. apríl 2015. Sérstakir gestir ráðstefnunnar verða Jonathan Bergmann og Aaron Sams, forsprakkar vendinámsins í Bandaríkjunum og höfundar bókarinnar ?Flip Your Classroom: Reach Every Student in Every Class Every Day?. Síðast þegar Keilir hélt sambærilega ráðstefnu komu yfir 500 kennarar og skólastjórnendur til að kynna sér hvernig hægt væri að nýta vendinám í kennslu.
 
Í kjölfar ráðstefnunnar gefst þátttakendum kostur á að sækja vinnubúðir þar sem þeir geta prófað sig áfram í tæknimálum og kennsluháttum, ásamt því hvernig þeir eiga að undirbúa námsefni og kennslustundir í vendinámi. Markmiðið er að gefa þátttakendum innsýn í hvernig hægt er að innleiða vendinám á mismunandi skólastigum, hvort heldur sem er í stökum áföngum eða í öllu skólastarfinu.
 
Þann 15. apríl er skólastjórnendum og öðrum áhugasömum einnig boðið að sækja sérstakar vinnubúðir með Jonathan og Aaron, þar sem tækifæri gefst til að vinna náið með þeim um innleiðingarferli, mikilvæg atriði varðandi vendinám og þeirra hugmyndir.
 
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má nálgast hér.