Fara í efni

Apple snjalltækjanámskeið fyrir byrjendur

Keilir stendur fyrir byrjendanámskeiði í notkun snjalltækja frá Apple.

Vegna mikillar eftirspurnar hefur Keilir ákveðið að fara af stað með tveggja kvölda byrjendanámskeið í snjalltækjunum iPad, iPad Mini og iPhone. Mörg dæmi eru um að fólk eigi eða hafa greiðan aðgang að þessum fjölþættu tækjum en hafi ekki kunnáttu til þess að beita þeim.  Einnig er notkun iPad alltaf að aukast í grunnskólum og því mikill kostur fyrir foreldra að hafa grunnþekkingu á þessum tækjum. Leitast verður við að koma til móts við fólk á öllum aldri, en sérstaklega þá sem lítið kunna og þora.

Farið verður í grunninn á mannamáli og fólk kynnt fyrir þeim þægindum og möguleikum sem þessi snjalltæki bjóða uppá. Sérstaklega verður farið í einföld atriði eins og flýtileiðir, helstu forrit, möppur, myndavél og myndir, myndbönd, stillingar og uppsetningu íslensks lyklaborðs. Einnig mikilvæg atriði eins og stofnun Apple reiknings og kennsla á App búðina.

Lagt verður upp úr persónulegri þjónustu og kennslu í litlum hópum. Fyrsta tveggja kvölda námskeiðið verður haldið kl 17:00 – 19:00 dagana 30. apríl og 2. maí í húsnæði Keilis á Ásbrú. Gert er ráð fyrir að fólk skaffi sín eigin tæki til að vinna með á námskeiðinu, öðrum stendur einnig til boða möguleikinn að mæta og fylgjast með. Kennslan er miðuð við útgáfur iOS 5/6, því er mikilvægt að tryggja að þær útgáfur séu uppsettar í tækinu, þá nýtist tíminn betur.

Leiðbeinandi er Hilmar Þór Birgisson. Hilmar er kennari í Tæknifræði hjá Keili, og er með M.Sc. gráðu úr Rafmagns- og Tölvuverkfræði Háskóla Íslands með eins árs skiptinám að baki við danska tækniháskólann í Lyngby (DTU). Hilmar hefur lokið fjölda áfanga er við koma hugbúnaðarþróun og þá einkum „app“ hugbúnaðar. Hann hefur brennandi áhuga á nútíma tækni og nýungum.

Þetta námskeið er fyrsta námskeiðið hjá Viskubrunni Keilis. Viskubrunnurinn er nýjung hjá skólanum og mun bjóða upp á fjölbreytt námskeið og fyrirlestra í framtíðinni. Í Viskubrunninum verða námskeið sem verða kennd með hefðbundnu sniði en megin áherslan verður á netfyrirlestra og stutt námskeið á netinu í mörgum grunnfögum sem nýtist breiðum hópi í samfélaginu, sem aukakennsla og ítarefni.

Námskeiðið er 2 x 2 klst. Verð: 7.900,-

Skráning á námskeiðið

Nánari upplýsingar: sigrunsvafa@keilir.net