Keilir býður upp á röð opinna áfanga sem miðast við Aðalnámskrá framhaldsskólanna og bættist í byrjun febrúar við nýr áfangi um inngang að afbrotafræði.
Áfangarnir henta bæði öllum þeim sem þurfa að uppfylla ákveðnar forkröfur til náms innan annarra deilda Keilis og öðrum sem vantar einungis viðbótareiningar en stefna á nám utan Keilis. Áfangarnir eru einungis kenndir í fjarnámi og geta nemendur skráð sig og byrjað hvenær sem þeim hentar.
Inngangur að afbrotafræði
Í byrjun febrúar síðastliðinn bættist við félagsvísindaáfangi í afbrotafræði. Farið er í sögu greinarinnar og nokkrum helstu hugtökum og kenningum gerð skil. Áhersla er lögð á afbrotahegðun og refsingar m.a. í tengslum við lagskiptingu og menningarkima.
Ekki er krafist undanfara til þess að skrá sig í áfangann og því bæði kjörinn og aðgengilegur áfangi fyrir alla sem eru að bæta við sig framhaldsskólaáföngum. Gert er ráð fyrir tveimur nýjum áföngum til viðbótar við aðra opna áfanga síðar á árinu.
Nánar um Hlaðborð Keilis
Sveigjanleiki í innritun í opna áfanga er afar rúmur og innritun fer almennt fram þrisvar sinnum í viku alla virka daga ársins á dagvinnutíma. Innritun fer þó ekki fram um helgar eða á hátíðisdögum. Nemendur hafa fjóra mánuði til þess að klára áfanga frá þeim degi sem þeir skrá sig og geta skipulagt vinnu sína í áföngum í takt við aðra vinnu eða aðrar skyldur sem þeir bera.
Þó opnir áfangar séu að miklu leyti byggðir á einstaklingsvinnu og rafrænum samskiptum við kennara þá er þess krafist í námsmati að nemandi standist munnlegt lokamat á fundi/fjarfundi með kennara í öllum áföngum. Kennarhópurinn í opnum áföngum samanstendur af öflugum sérfræðingum hver á sínu sviði.