Fara í efni

Brautskráning tæknifræðinemenda Háskóla Íslands og Keilis

Útskriftarhópur tæknifræðinemenda HÍ og Keilis
Útskriftarhópur tæknifræðinemenda HÍ og Keilis
Föstudaginn 19. júní fór fram brautskráning kandídata í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis, en námið heyrir undir Rafmagns- og tölvuverkfræðideild HÍ. Þetta er í fjórða skipti sem útskrifaðir eru nemendur í tæknifræði frá Keili til BSc-gráðu frá Háskóla Íslands. Brautskráðust í allt þrettán nemendur, átta úr mekatróník hátæknifræði og fimm úr orku- og umhverfistæknifræði. Brautskráningin fór fram við hátíðlega athöfn í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú og hafa nú í allt 47 nemendur útskrifast úr náminu frá upphafi.
 
Karl Sölvi Guðmundsson, dósent við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og Sverrir Guðmundsson forstöðumaður tæknifræðinámsins afhentu prófskírteini. Önundur Jónasson, formaður Tæknifræðingafélags Íslands flutti ávarp og veitti viðurkenningu fyrir áhugavert og vel unnið lokaverkefni, en hana hlaut Jónas Pétur Ólafson fyrir verkefnið ?Leiðréttingahlíf fyrir hnélið sem reiðir sig á skynjara?. Þá hlaut Thomas Andrew Edwards viðurkenningu fyrir bestan námsárangur, með 8,82 í meðaleinkunn, auk þess sem Hafliði Ásgeirsson fékk viðurkenningu fyrir góð störf í þágu nemendastarfs og námsins.
 
Hafliði Ásgeirsson flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema og Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis flutti ræðu og stjórnaði athöfninni. Gjafir veittu Tæknifræðingafélag Íslands, HS-Orka og Kadeco.
 
Næst verður tekið við nemendum í tæknifræðinám Háskóla Íslands og Keilis í ágúst 2015. Um er að ræða hagnýtt nám sem hentar sérstaklega vel fyrir frumkvöðla og þá sem hafa áhuga á verklegri nálgun í námi og starfi. Nánari upplýsingar um námið má nálgast á www.kit.is