Fara í efni

Daglegt líf á Ásbrú

Á Ásbrú hefur á undanförnum fjórum árum tekist að byggja upp öflugan byggðakjarna, með fjölmörg fyrirtæki, fjölbreytta þjónustu og sívaxandi íbúafjölda.

Svæðið, sem er staðsett á fyrrum varnarsvæði Bandaríkjahers, er hluti af Reykjanesbæ sem er eitt af fimm stærstu sveitarfélögum landsins með ríflega 14.000 íbúa. Síðan svæðið var tekið í notkun árið 2007 hefur Reykjanesbær unnið að því, í samstarfi við Kadeco, Háskólavelli og fyrirtæki á svæðinu að byggja upp Ásbrú sem ákjósanlegan stað fyrir nemendur, íbúa og starfsemi. 

Íbúafjöldi á Ásbrú er nú um 1.600 manns eða álíka margir og í 103 Reykjavík. Auk þess sækir fjöldi fólks vinnu, nám og þjónustu á svæðinu og má því áætla að daglega komi vel yfir tvö þúsund einstaklingar á Ásbrú. Hinsvegar dreifist starfsemin um gífurlegt stórt landsvæði og því ekki alltaf sem fólk verður vart við þá uppbyggingu og iðandi mannlíf sem er á svæðinu. 
 
Stærsti kampus á Íslandi 
 
Húsnæðissvið Keilis heldur utan um stærsta kampus á landinu á Ásbrú og sér um daglegan rekstur nemendaíbúða og þjónustu við íbúa á svæðinu. „Einkum er það hagstætt verðlag og stærð íbúða, sem hefur orðið til þess að öflugt og kraftmikið samfélag námsmanna og fjölskyldna þeirra hefur verið að myndast á svæðinu”, segir Jófríður Leifsdóttir, umsjónarmaður Húsnæðissviðs Keilis. „En þar að auki hefur áhersla á góð lífskjör og öflugar menntastofnanir jákvæð áhrif á þróun svæðisins. Öll uppbygging og umgjörð svæðisins miðar að því að gera Ásbrú að fjölskylduvænu svæði sem gott er að búa á meðan á námi stendur.” 
 
 
Birgir Már Bragason, umsjónarmaður fasteigna og Jófríður Leifsdóttir umsjónarmaður Húsnæðissviðs Keilis
 
Mikil ásókn er í að leigja nemendaíbúðir á Ásbrú og eru nú um 700 íbúðir til útleigu. „Almennt séð eru íbúðirnar í afar góðu ásigkomulagi. Í þeim tilvikum sem hlutir eru ekki eins og þeir eiga að vera, er brugðist fljótt við athugasemdum íbúa og reynt að laga það sem útaf ber”, samkvæmt Birgi Má Bragasyni, umsjónarmanni fasteigna. „Eins er hart tekið á öllu því sem raskar ró og lifnaðarháttum fjölskyldufólks á svæðinu. Hingað til hafa hlutirnir gengið afar vel, en líkt og í öllum öðrum samfélögum af svipaðri stærðargráðu geta komið upp vandamál bæði hvað varðar húsnæði og meðal íbúa á svæðinu”, segir Birgir. Lang flestir þeirra sem flytja á Ásbrú þó ánægðir með bæði svæðið og íbúðarhúsnæðið. Samkvæmt þjónustukönnun sem var gerð meðal íbúa í byrjun ársins 2011 kemur fram að tæplega 87% þeirra sem búa á Ásbrú ánægðir með húsnæðið sitt og 89% íbúa ánægðir með Ásbrú sem stað til að búa á. 
 
Menning er hornsteinn þess að samfélag geti blómstrað 
 
Sífellt fleiri sækja orðið viðburði og þjónustu á Ásbrú. Röð vel sóttra ráðstefna og tónlistarviðburða hafa verið undanfarið í Andrews leikhúsinu, menntastofnanir á öllum skólastigum laða til sín nemendur frá öðrum bæjarfélögum, mikil ásókn er í þjálfun og líkamsrækt í íþróttamiðstöð Ásbrúar, og fjöldi fólks tekur daglega þátt í starfsemi félagasamtaka á svæðinu. Þótt fjölmörg mannvirki séu fyrir hendi á Ásbrú, verður einungis til samfélag með því fólki sem býr, starfar og stundar nám á svæðinu. Á örfáum árum hefur orðið til byggðakjarni sem hefur sýnt sig að vera eftirsóknarverður staður bæði til að lifa og starfa. Þó svo að umgjörðin sé smám saman að taka á sig mynd, til að mynda með uppbyggingu samgönguæða og nýrra fyrirtækja, verður aðeins til öflugt samfélag með fólki sem sýnir því áhuga, frumkvæði og metnað.