Eitt af stefnumarkmiðum Keilis er að tengjast nærsamfélaginu á fjölbreyttan hátt. Í nágrenni Keilis eru ýmis fyrirtæki og stofnanir eins og leikskólar, grunnskóli, hótel, Hæfingarstöð, Hjálpræðisher og margt fleira. Hæfingarstöðin er dagþjónusta fyrir fatlað fólk á Suðurnesjum sem er í nágrenni við Keili og mætti fjölmennur hópur í Keili og naut gestrisni og góðra veitinga. Starfsfólk Keilis tók á móti starfsmönnum og þjónustuþegum Hæfingarstöðvarinnar í vikunni, kynnti skólann, sýndi skólastofurnar og bauð uppá leiki í íþróttasal Keilis. Nokkrir nemendur í Holtaskóla aðstoðuðu við að taka á móti gestunum og settu upp þrautabraut í íþróttasalnum. Tölvuleikjagerðarkennari MÁ mætti með sýndarveruleikagræjur til að leyfa öllum sem vildu að prófa. Samverustundin færðist síðan yfir í Kappa sem er ein af skólastofum nemenda í Menntaskólanum á Ásbrú þar sem boðið var upp á jólakökur, flatkökur með hangikjöti, malt, appelsín og kaffi. Við þökkum gestum okkar og nágrönnum fyrir ánægjulega kynni og vonum að þau hafi notið heimsóknarinnar.