28.02.2020
Í ársbyrjun 2020 voru samtals um ellefu hundruð nemendur skráðir í nám og ýmiskonar námskeið á vegum Keilis og hafa aldrei fleiri aðilar lagt stund á nám við skólann en nú.
Fjöldi nemenda hefur þannig nærri því tvöfaldast frá því á sama tíma árið 2019. Munar þar mestu um nýnema í Menntaskólanum á Ásbrú sem hófu nám á stúdentsbraut með áherslu á tölvuleikjagerð í ágúst og atvinnuflugnema sem lögðu áður stund á nám í Flugskóla Íslands, en hann sameinaðist Flugakademíu Keilis fyrr á árinu. Þá tók Keilir einnig yfir umsjón með námskeiði til inntökuprófs í læknisfræði sem hefur verið gríðarlega vinsælt, sérstaklega meðal framhaldsskólanema á undanförnum árum.
Eftir sem áður eru stærstu námsbrautirnar Háskólabrú og atvinnuflugnámið. Á vorönn 2020 leggja rúmlega þrjú hundruð einstaklingar stund á nám í Háskólabrú, bæði í fjarnámi og staðnámi. Frumgreinanámið sem gildir til inntöku í allar deildir Háskóla Íslands, ásamt fjölda háskóla bæði hérlendis og erlendis, hefur frá upphafi verið ein eftirsóknarverðasta deild Keilis og hafa nú um tvö þúsund einstaklingar lokið náminu. Háskólabrú í bæði stað- og fjarnámi hefst næst í ágúst 2020 og er aukin ásókn í námið þriðja árið í röð.
Flugakademía Keilis - Flugskóli Íslands er orðinn einn öflugasti flugskóli á Norðurlöndunum með um þrjúhundruð nemendur í atvinnuflugnámi og yfir tuttugu kennsluvélar. Með auknum umsvifum er skólinn með starfsstöðvar bæði við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík og á Reykjavíkurflugvelli. Þá geta nemendur sótt bóklegt nám annað hvort í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú eða í húsnæði skólans í Hafnarfirði. Um það bil 90% nemenda okkar sem hafa lokið þessu námi hafa fundið starf innan eins árs frá útskrift. Mikill skortur er á flugmönnum á heimsvísu og er búist við að það muni þurfa um 800.000 flugmenn á heimsvísu á næstu tuttugu árum til að mæta örum vexti.
Lang flestir nemendur Keilis eru íslenskir eða um 95% en um 60 manns koma erlendis frá, flestir frá Danmörku (15), Póllandi (8), Svíþjóð (5) og Kanada (4). Þá eru rúm 60% nemenda búsettir á höfuðborgarsvæðinu og tæp 20% á Reykjanesi. Rúmlega helmingur nemenda eru kvenkyns (54%) og munar þar mestu um aukinn áhuga kvenna á atvinnuflugnámi og eru þær nú ríflega fjórðungur flugnema í Flugakademíunni. Meðalaldur nemenda Keilis er 25 ára og hefur meðalaldurinn lækkað talsvert eftir að Menntaskólinn á Ásbrú hóf starfsemi síðastliðið haust.
Opnað hefur verið fyrir umsóknir í nám á haustönn 2020 og má nálgast nánari upplýsingar um námsframboð á heimasíðu Keilis.