Fara í efni

Farsælt komandi ár Keilis

Árið 2008 útskrifuðust 85 nemendur í fyrstu útskrift Keilis, en síðan þá hafa yfir þrjú þúsund einstaklingar lokið námi við skólann. Deildirnar eru nú orðnar fjórar með á annan tug námsframboða, starfsfólk hátt í eitt hundrað og árleg velta nálægt einum milljarði. 
 
Keilir var stofnaður þann 4. maí 2007 og fagnaði því tíu ára starfsafmæli á árinu sem er að líða. Á þessum tíma hefur fjöldi háskólamenntaðra á Suðurnesjum margfaldast samhliða því að námstækifærum hefur fjölgað á svæðinu. Keilir hefur frá upphafi kappkostað að bjóða upp á nám sem höfðar jafnt til þarfa nútíma nemenda og krafa atvinnulífsins, og þannig mætt örum breytingum í kennsluháttum og á vinnumarkaði. 
 
Það hefur margt áunnist á undanförnum áratug en að sama skapi er margt framundan.
 
Breyttir kennsluhættir og aðlögun kennslurýmis
 
Nú fer kennsla í skólum Keili að mestu leyti fram sem vendinám. Þar er hefðbundnu skólastarfi snúið við, nemendur sækja upptökur kennara og kennslustundir rafrænt hvar og hvenær sem þeim hentar, en vinna heimavinnuna í skólastofunni. Í kjölfarið á breyttum kennsluháttum hafa skólar Keilis einnig unnið að breytingum á námsmati þar sem dregið er úr vægi lokaprófa og boðið upp á fjölbreyttara mat á lokaprófum eða þeim útrýmt algerlega.
 
Með breyttum áherslum í kennsluháttum hefur Keilir einnig ákveðið að aðlaga námsrýmin betur að kröfum og þörfum nemenda. Skólahúsnæðið ber þess merki að það hefur verið hannað sem rými fyrir hefðbundið kennsluform þar sem kennarinn stendur við töflu og miðlar efninu til nemenda sem sitja í röðum uppstiltra borða. Þetta form hentar ekki nútíma kennsluháttum og munu skólastofur Keilis taka breytingum á næsta ári þar sem prófað verður áfram með fjölbreyttari og sveigjanlegri uppsetningu námsrýma bæði innan og utan veggja kennslustofunnar. 
 
Þá hefur Keilir sett upp fullkomið upptökuver fyrir kennara með ýmiskonar búnaði sem nýtist þeim til að miðla kennsluefninu sem best til nemenda. Þetta upptökuver stendur einnig öðrum skólum og fyrirtækjum til boða sem vilja taka upp námsefni undir handleiðslu kennara með reynslu af vendinámi.
 
Keilisgarðar í undirbúningsferli og fjölbreyttara námsframboð
 
Mikill fjöldi nemenda Keilis koma langt að til að sækja nám við skólann, bæði af landsbyggðinni og erlendis frá. Þrátt fyrir fjölda íbúða á Ásbrú, hefur gríðarleg fjölgun íbúa í sveitarfélaginu á undanförnum misserum, ásamt uppbygging þjónustufyrirtækja í ferðaþjónustu, leitt til þess að skortur er á aðgengilegu og hagvæmu íbúðarhúsnæði fyrir nemendur á Suðurnesjum. 
 
Því sótti Keilir í haust um leyfi til byggingar 100 herbergja stúdentagarða við Grænásbraut 913 á Ásbrú í Reykjanesbæ. Umsóknin hefur verið samþykkt hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar og mun Íbúðarlánasjóður afgreiða umsókn um styrkveitingu vegna byggingarinnar fljótlega á nýju ári. Ef allt gengur eftir gætu fyrstu nemendurnir fengið inni á nýjum Keilisgörðum strax haustið 2018. 
 
Þá mun Keilir halda áfram þróunarvinnu og undirbúningi á næsta ári við að auka námsframboð og valmöguleika nemenda á öllu skólastigum að sækja sér viðeigandi nám í framsæknu og nútímalegu skólaumhverfi. Vonir eru bundnar við að nám í tölvuleikjagerð til stúdentsprófs verði loksins samþykkt á næsta ári, auk þess sem áhugi er fyrir auknu samstarfi við utanumhald kennslu á seinni stigum grunnskóla í nýjum skóla á Ásbrú í anda NÚ skólans í Hafnarfirði.  
 
Íþróttaakademía fær evrópska gæðavottun
 
ÍAK einkaþjálfaranám Keilis hlaut á dögunum alþjóðlega viðurkenningu og vottun á náminu á vegum Europe Active stofnunarinnar. Vottunin er gæðastimpill á því námi sem skólinn hefur boðið upp á undanfarin ár og mun auka sýnileika útskrifaðra nemenda á alþjóðavísu. Með vottuninni verða útskrifaðir einkaþjálfarar framvegis skráðir í EREPS gagnagrunn þeirra og öðlast þar með evrópska vottun á færni sinni. Vottunin gildir ekki fyrir fyrrverandi nemendur námsins, en skólinn hefur ákveðið að bjóða upp á Masterclass námskeið fyrir útskrifaða ÍAK einkaþjálfara þar sem þeir munu geta öðlast þessa vottun í framhaldinu.
 
Þá er vaxandi áhugi á styrktarþjálfaranáminu, sér í lagi meðal íþróttafélaga, en námið tekur á styrktar- og ástandsþjálfun íþróttafólks. Starfsheiti styrktarþjálfara hefur fest sig í sessi og hefur fagið fengið aukna viðurkenningu fagfólks. 
 
Á árinu sem er að líða var í fyrsta skipti boðið upp á einkaþjálfaranám Keilis á ensku undir heitinu NPTC - Nordic Personal Trainer Certificate. Námið fer að öllu fram í fjarnámi og luku fyrstu nemendurnir náminu í vetur. Stefnt er að því að bjóða upp á NPTC á alþjóðlegum markaði og hefur Bretinn Ben Pratt verið ráðinn verkefnastjóri fyrir námið, en hann hefur verið stundakennari við Keili undanfarin ár.
 
Stefnt er að því að bjóða upp á annað ár í háskólanámi leiðsögumanna í ævintýraferðaþjónustu í framtíðinni og mun undirbúningur fyrir námslínuna hefjast á næsta ári. Undanfarin ár hefur skólinn boðið upp á átta mánaða Certificate nám á vegum Thompson Rivers University, en áhugi hefur verið meðal nemenda og skólastjórnenda að bjóða einnig upp á meiri sérhæfingu þar sem nemendur munu útskrifast með Diplómagráðu að loknu tveggja ára námi. Vonast er til þess að nemendur sem hefja leiðsögunám í ævintýraferðamennsku hjá Keili haustið 2018 munu geta tekið námslínu til diplómagráðu í greininni haustið 2019.
 
Aldrei fleiri nemendur á Háskólabrú
 
Breytingar voru gerðar á fyrirkomulagi Háskólabrúar á árinu og er það núna einvörðungu kennt í lotum. Skólagjöld í námið voru lækkuð í kjölfarið, auk þess sem ákveðið var að nemendur gætu hafið fjarnám tvisvar árlega, á haustin og vorin, en staðnám einungis á haustin. Tæplega þrjú hundruð umsóknir bárust í námið fyrir haustönn 2017 og stunda um áramótin samtals 365 nemendur nám í Háskólabrú Keilis. 
 
Þá er verið að hanna vinnulotur þannig að hægt verði að bjóða upp á persónulegri nálgun í fjarnámi, auk þess sem vinna verður lögð í að halda betur utan um mögulega brottfallsnemendur meðal annars með virkari aðkomu umsjónarkennara í minni nemendahópum.   
 
Áfram verður unnið að undirbúningi alþjóðlegrar Háskólabrú og er stefnt á að fyrsti hópurinn hefji nám haustið 2018. 
 
Flugakademía Keilis á fljúgandi siglingu
 
Mikill skortur er á flugmönnum á heimsvísu og ör vöxtur íslenskra flugfélaga hafa umbylt starfsumhverfi og möguleikum nýútskrifaðra atvinnuflugnema. Samtals stunda um þrjú hundruð nemendur flugtengt nám í Flugakademíu Keilis og hefur veirð aukin ásókn í atvinnuflugmannsnám á undanförnum misserum. Þá hafa um 600 nemendur útskrifast frá því að skólinn hóf starfsemi árið 2008.
 
Flugakademía Keilis hefur verið leiðandi aðili í atvinnuflugmannsnámi á Íslandi á undanförnum árum. Nýjar og tæknivæddar kennsluvélar skólans hafa bylt verklegri þjálfun flugnema og með nýjum kennsluháttum hefur bóklegt nám aðlagast þörfum og kröfum nútíma nemenda. Vegna aukinna umsvifa hefur Flugakademía Keilis fest kaup á fjórum nýjum DA40 kennsluflugvélum sem munu bætast við flugflota skólans snemma á árinu 2018. Eftir kaupin hefur skólinn til umráða alls fjórtán kennsluvélar, auk fullkominna flugherma, en á næsta ári bætist við nýr flughermir fyrir þjálfun á DA42 tveggjahreyfla flugvél skólans.
 
Keilir bauð fyrstur skóla á Íslandi upp á samtvinnað atvinnuflugmannsnám árið 2013 og í nóvember síðastliðnum bauð skólinn upp á svokallað cadet nám í samstarfi við Icelandair, þegar 25 nemendur hófu námið. Þetta var í fyrsta skipti sem slíkt nám hefur staðið nemendum til boða á Íslandi en þar aðstoðar Icelandair nemendur við fjármögnun námsins, auk þess sem samþykktir nemendur njóta forgangs til starfa hjá þeim að námi loknu. 
 
Mikill áhugi nemenda á þessari námsleið ýtir undir aukið samstarf við fleiri flugfélög um sambærilegt nám á þeirra vegum, og hefur verið ráðinn sérstakur verkefnastjóri sem mun halda utan um innleiðingu cadet námsins fyrir innlend og erlend flugfélög.
 
Skólinn mun á næstu misserum halda áfram að þróa kennsluhættina og mæta enn betur kröfum framtíðarnemenda. Kennslufyrirkomulag skólans hentar vel fyrir nemendur sem koma lengra að og er fyrirhugað að bjóða upp á bóklega kennslu í fjarnámi á næsta ári. Þá er einnig verið að skoða möguleika á setja upp ústöðvar, bæði hérlendis og erlendis, fyrir verklega þjálfun flugnema.
 
Skortur á flugkennurum ein helsta ógnin við frekari uppbyggingu skólans, auk þess sem styrking krónunnar hefur dregið úr ásókn erlendra flugnema. Þá þrengja aukin umsvif flugfélaga á Keflavíkurflugvelli að kennsluflugi. En áframhaldandi vöxtur innlendra og erlendra flugfélaga, og mikill yfirvofandi skortur á atvinnuflugmönnum, þýðir að framtíð Flugakademíu Keilis er björt.
 
Tæknifræðinám hjá Keili á vegum Háskóla Íslands
 
Meðal helstu nýjunga sem tengjast tæknifræðináminu er verkefni á vegum Háskóla Íslands um innleiðingu fagháskólanáms á Íslandi og hefur umsókn um undirbúningsferli fyrir fagháskóla verið samþykkt í menntamálaráðuneytinu. Fagháskólanáminu mun ljúka með associategráðu og orðið brú inn í áframhaldandi háskólanám í tæknifræði þar sem það hentar vel fyrir hagnýta nálgun tæknifræðinnar. Þá verða inntökuskilyrði ekki miða við stúdentspróf líkt á í háskólum, heldur byggja meðal annals á raunfærnimati. 
 
Auknir möguleikar verða til að stunda námið í fjarnámi og með vinnu, meðal annars í samstarfi við háskólasetur á landsbyggðinni, og mun það auka tækifæri nemenda á landsbyggðinni.