Yfir hundrað börn á aldrinum 10-16 ára keppa á laugardag í árlegri alþjóðlegri LEGÓ keppni. Keppnin, sem fer fram hjá Keili, er ætlað að vekja áhuga grunnskólanema á vísindum og tækni með því að leysa ýmsar þrautir með LEGO kubbum.
Hugmyndafræði keppninnar er að nemendur læri að vinna saman og taka þátt í nýsköpun og framleiðslu á einhvers konar tæki sem gagnast samfélaginu. Á hverju ári er keppninni valið ákveðið þema og í ár er það heilbrigðistækni. Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ ásamt Barnasmiðjunni umboðsaðila LEGO á Íslandi halda keppnina og fer hún fram hjá Keili laugardaginn 13. nóvember.
Keppnin felst í eftirfarandi þáttum:
- Smíði á vélmenni úr tölvustýrðu LEGO og að forrita það til að leysa ákveðnar þrautir
- Rannsóknarverkefni
- Dagbók / ferilskráning
- Skemmtiatriði
Aðalviðurkenninguna hlýtur það lið sem er stigahæst í öllum framangreindum þáttum. Þeirri viðurkenningu fylgir þátttökuréttur á Evrópumóti FLL sem fram fer í júní á næsta ári í Delft í Hollandi.
Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu keppninnar
Myndbönd sem Keilir hefur búið til um LEGO Mindstorms má nálgast hérna