02.06.2014
Tæknifræðinám miðar að því að nýta þá tækniþekkingu sem er til staðar hverju sinni til þróunar á nýjum lausnum fyrir iðnað og atvinnulíf. Í tæknifræðinámi Háskóla Íslands og Keilis er því lögð áhersla á að byggja upp öfluga verkþekkingu samhliða fræðilegri grunnþekkingu með því að flétta saman bókleg fög og verkefnavinnu. Námið hefur hentað vel þeim sem koma úr tæknimiðuðu iðnnámi eða vélstjórnanámi og hafa aflað sér verkþekkingar á vinnumarkaði en einnig þeim sem hafa lokið hefðbundnu stúdentsprófi.
Líkt og undanfarin ár eru lokaverkefni nemanda afar fjölbreytt og verða varnir haldnar fyrstu vikuna í júní. Meðal lokaverkefna á þessu ári má nefna þróun sjálfvirkrar nálavindivélar fyrir veiðafæri, nýting vindorku fyrir vinnslustöð í Grindavík, þróun á raf- og stýribúnaðu fyrir nýja vinnslulínu, ný tækni til að hindra útfellingar í hitaveiturörum, þróun á átöppunarbúnaði fyrir GeoSilica Iceland, ný tækni til að skynja og stýra álagi gervifóta hjá Össuri, sjálfvirkur dróni fyrir kvikmyndatökur, nýting endurnýjanlegra orkugjafa frá skolphreinsistöðvumog nettengdar ódýrar veðurstöðvar fyrir almenning.
Listi yfir útskriftarefni 2014 og lokaverkefni
- Guðmundur Arnar Grétarsson: Hönnun, prófun og forritun á rafstýrikerfi fyrir færiband.
- Karl Guðni Garðarsson: Hönnun á sáldurrörum sem takmarkar útfellingu á jarðhitavökva.
- Davíð Ásgeirsson: Hönnun og smíði á átöppunarvél fyrir fæðubótaefni sem sprotafyrirtækið GeoSilica er að framleiða.
- Gunbold G. Bold: Fýsileiki þess að gera skolphreinsistöðvar í eyjasamfélögum sjálfbærar með því að nýta endurnýjanlega orku.
- Sigurður Örn Hreindal: Hönnun á nálavindivél fyrir netagerðafyrirtæki.
- Atli Guðjónsson: Möguleikar á nýtingu vindorku til raforkuframleiðslu fyrir fiskeldisvinnslustöð.
- Karl Ingi Eyjólfsson: Hönnun og smíði á færanlegri veðurathugunarstöð.
- Eiríkur Unnar Ólafsson: Sjálfvirkur dróni fyrir kvikmyndatökur.
- Úlfar Óli Sævarsson: Bestun á litlum vatnsaflsstöðum í dreifbýlum.
- Kristján Kristinsson: Hönnun og þróun töppunarbúnaðar fyrir álframleiðslu með Back Cell aðferð.
- Skarphéðinn Ölver Sigurðsson: Ný tækni til að skynja og stýra álagi gervifóta hjá Össuri.
Fjölbreytt verkefni í samstarfi við atvinnulífið
Nú stunda um sjötíu nemendur tæknifræðinám hjá Keili og virðist mikil vitundarvakning bæði meðal almennings og fyrirtækja á þeim möguleikum sem námið hefur uppá að bjóða. Sífellt fleiri fyrirtæki hafa leitað til Keilis með hagnýt verkefni fyrir nemendur og er nú svo komið að fjöldi gífurlega áhugaverðra verkefna bíða þess að nemendur takist á við þau. Meðal verkefna sem nemendur hafa verið að vinna í náminu eru aukin sjálfvirkni og nýting afurða í skelfiskvinnslu, hita- og flæðistýring fyrir heitapotta, hönnun á olíukælingu fyrir tölvur í gagnaverum, nýting á fiskafurðum til framleiðslu lífdísels, nýting á sorpúrgangi til framleiðslu metangass, og stýring á varmaflæði upphitaðs jarðvegs til ræktunar.
Tæknifræðinám Háskóla Íslands og Keilis
Háskóli Íslands og Keilir bjóða í samstarfi upp á háskólanám í tæknifræði, en námið er námsleið undir Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands. Nemendur eru skráðir í Háskólann og útskrifast þaðan en námið fer alfarið fram á vettvangi Keilis á Ásbrú. Með náminu er leitast við að koma til móts við síaukið ákall atvinnulífsins eftir öflugri og fjölbreyttri tæknimenntun á háskólastigi.
Um er að ræða þriggja og hálfs árs nám sem veitir auk B.Sc. gráðu, rétt til að sækja um lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur. Uppbygging námsins er með óhefðbundnu sniði en það fer fram allt árið fyrir utan sex vikna sumarfrí. Nemendur eiga því kost á að klára námið á þremur árum og komast þannig fljótt út á atvinnumarkaðinn með fagleg réttindi og sérþekkingu sem er sniðin að þörfum atvinnulífsins.
Umsóknarfrestur um nám sem hefst á haustönn 2014 er til 5. júní næstkomandi.