Fara í efni

Fjölmenn ráðstefna um speglaða kennslu

Jonathan Bergmann með starfsmönnum frá Keili
Jonathan Bergmann með starfsmönnum frá Keili
Keilir hélt á dögunum vinnudag um speglaða kennslu með Jonathan Bergmann, höfundi bókarinnar "Flip Your Classroom".

Keilir hélt á dögunum vinnudag um speglaða kennslu með Jonathan Bergmann, höfundi bókarinnar "Flip Your Classroom". Hátt í 500 manns frá öllum skólastigum víðsvegar af landinu tóku sóttu ráðstefnuna sem tókst framar vonum.

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, setti ráðstefnuna en síðan tók aðalræðumaður dagsins, Jonathan Bergmann við og fjallaði um hugmyndir og aðferðir að baki speglaðri kennslu. Í líflegum fyrirlestri sýndi hann hvernig skólar á öllum skólastigum hafa tekið upp þessa aðferð í kennslu. Þá sögðu kennarar og nemendur í Keili frá reynslu sinni af speglaðri kennslu. Eftir hádegi tók við hópastarf eftir skólastigum og greinum þar sem markmiðið var að gera sér grein fyrir hugmyndum speglaðrar kennslu og hvernig innleiða má slíka kennslu í íslenskum skólum.

Jonathan Bergmann er talinn einn forvígismanna ört vaxandi hreyfingar í Bandaríkjunum – The Flipped Classroom Movement eða hreyfingin um speglaða kennslu. Jonathan hefur kennt raungreinar í 24 ár. Hann hefur hlotið margvísleg verðlaun, s.s. Forsetaverðlaunin fyrir úrvals kennslu í stærðfræði og raunvísindum og var annar í kjörinu Kennari ársins 2002 í Colorado. Hann er einn stofnenda sjálfseignarstofnunar um speglaða kennslu (The Flipped Learning Network) sem veitir kennurum gögn og upplýsingar vegna speglaðrar kennslu (http://flippedlearning.org).

Keilir og samstarsfaðilar þakka þátttakendum, fyrirlesurum og ekki síst Jonathan Bergmann fyrir að leggja sitt af mörkum á skemmtilegum og fróðlegum vinnudegi um speglaða kennsluhætti. Vonandi er þetta vísirinn að sem koma skal.