19.01.2019
Keilir brautskráði 103 nemendur við hátíðlega athöfn í Andrews Theater á Ásbrú í Reykjanesbæ föstudaginn 18. janúar. Við athöfnina voru brautskráðir 45 nemendur af Háskólabrú, 28 atvinnuflugmenn, 23 flugvirkjar og sjö nemendur úr fótaaðgerðafræði.
Þá var Þorsteinn Surmeli, kennari á Háskólabrú Keilis heiðraður fyrir framlag sitt til kennslu á Háskólabrú og þróun vendináms í Keili, en Þorsteinn tók nýverið við stöðu sérfræðings eTwinning hjá Rannís.
Í ræðu sinni minntist Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis meðal annars á gildi þess að taka ákvarðanir í lífinu og fylgja þeim eftir. Þá ræddi hann um gildi hugtakanna að vera góður að taka ákvörðun og að vera jákvæður í hugsun orðum og athöfnum.
Samtals hafa nú 3.335 nermendur lokið námi við deildir skólans sem var stofnaður á Ásbrú í Reykjanesbæ í maí 2007.
Útskrift fjarnámsnemenda Háskólabrúar Keilis
Háskólabrú Keilis brautskráði samtals 45 nemendur úr öllum deildum. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og afhenti viðurkennignarskjöl ásamt Margréti Hanna, verkefnastjóra. Sameiginlegir dúxar Háskólabrúar voru Særún Lúðvíksdóttir og Helena Björk Björnsdóttir, en þær voru báðar með 9,42 í meðaleinkunn. Þær fengu gjafir frá Íslandsbanka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá fékk Bergþóra Fjóla Úlfarsdóttir viðurkenningu frá HS orku fyrir góðan námsárangur af Verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar. Heimir Freyr Heimisson flutti ræðu útskriftarnema.
Með útskriftinni hafa samtals 1.746 nemendur útskrifast úr Háskólabrú Keili frá fyrstu útskrift skólans árið 2008 og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Aldrei jafn margir nemendur stundað frumgreinanám í Keili og á þessu námsári, en á annað hundrað umsóknir bárust í fjarnám Háskólabrúar sem hófst í byrjun janúar. Þeir bætast við fjölmennasta hóp nýnema í Háskólabrú sem hófu nám síðastliðið haust og stunda þar með núna hátt í þrjú hundruð nemendur frumgreinanám í Keili.
Hæsta einkunn frá upphafi í atvinnuflugnámi Keilis
Flugakademía Keilis útskrifaði 28 atvinnuflugnema og hafa þá samtals 246 atvinnuflugmenn útskrifast frá upphafi. Aukin aðsókn hefur verið í flugnám hjá Keili undanfarin ár og stunda að jafnaði á þriðja hundrað nemendur flugnám við skólann á ári hverju.
Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis flutti ávarp og afhenti atvinnuflugmönnum prófskírteini ásamt Snorra Pál Snorrasyni skólastjóra Flugakademíunnar. Lúðvík Alexander Bengtsson fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í atvinnuflugmannsnámi með 9,87 í meðaleinkunn. Þetta er hæsta einkunn sem gefin hefur verið frá upphafi skólans. Fékk hann gjafabréf frá WOWair og bók frá Icelandair.
Þá útskrifaði Flugakademían í fjórða sinn flugvirkjanema, en boðið er upp á námið í samvinnu við AST (Air Service Training) í Skotlandi. Rannveig Erla Guðlaugsdóttir, þjálfunarstjóri flugvirkjanáms, aðstoðaði við útskriftina. 23 nemendur útskrifuðust úr náminu að þessu sinni og fékk Ísak Þór Þorsteinsson viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Fékk hann gjafir frá Icelandair Maintenance Operation og ISAVIA.
Með útskriftinni hafa samtals rétt tæplega hundrað nemendur lokið flugvirkjanámi við skólann. Berglind Björk Sveinbjörnsdóttir, nemandi í atvinnuflugnámi, flutti ræðu útskriftarnema fyrir hönd Flugakademíu Keilis.
Fótaaðgerðafræðingar útskrifast í annað sinn
Sjö nemendur brautskráðust í annarri útskrift námsbrautar Keilis í fótaaðgerðafræði. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp og Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, þróunarstjóri námsins aðstoðaði við brautskráninguna.
Eyrún Linda Gunnarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur með 9,08 í meðaleinkunn og fékk gjafir frá Praxis og Áræði. Eyrun flutti einnig ræðu útskriftarnema fyrir hönd fótaaðgerðafræðinga.
Keilir hefur boðið upp á nám í fótaaðgerðafræði frá febrúar 2017 og stunda að jafnaði á annan tug nemenda námið hverju sinni. Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta.