Keilir útskrifaði samtals 209 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ, föstudaginn 12. júní 2020 og er þetta lang stærsta brautskráning nemenda skólans frá upphafi. Samtals hafa nú 3.858 nemendur lokið námi við deildir skólans sem var stofnaður á Ásbrú í Reykjanesbæ í maí 2007.
Við athöfnina voru brautskráðir 109 nemendur af Háskólabrú, 78 atvinnuflugnemar og 22 ÍAK styrktarþjáflarar. Sökum raskanna á skólahaldi í vor frestast brautskráning nemenda úr ÍAK einkaþjálfaranámi, en útskrift þeirra fer fram með nemendum úr Verk- og raunvísindadeildar Háskólabrúar Keilis í ágúst.
Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp og stýrði athöfninni, auk þess sem Þorgrímur Þráinsson flutti hátíðarræðu. Vegna aðgangstakmarkanna var athöfnin send út í beinu streymi á samfélagsmiðlum Keilis.
Tvöþúsundasti nemandinn frá Háskólabrú Keilis og hæsta meðaleinkunn frá upphafi
Háskólabrú Keilis brautskráði samtals 109 nemendur úr öllum deildum. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar stýrði útskrift og afhenti viðurkennignarskjöl ásamt Margréti Hanna, verkefnastjóra.
Dúx Háskólabrúar var Valdís Steinarsdóttir með 9,73 í meðaleinkunn. Er þetta hæsta meðaleinkunn af Háskólabrú frá upphafi. Hún fékk peningagjafir frá Arion banka og Keili. Þá fékk Alexandra Rós Jankovic menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir góðan námsárangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þrautseigju. Harpa Ægisdóttir flutti ræðu útskriftarnema.
Þau tímamót voru við þetta tækifæri að tvöþúsundasti nemandinn útskrifaðist af Háskólabrú og féll sá heiður Sjöfn Sigurbjörnsdóttur.
Eftir athöfnina hafa samtals 2.020 nemendur brautskrást af Háskólabrú frá fyrstu útskrift skólans árið 2008 og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Aldrei hafa jafn margir nemendur stundað frumgreinanám í Keili og á þessu námsári og hafa umsóknir aldrei verið jafn margar og fyrir komandi haustönn. Þeir bætast við fjölmennan hóp nemenda sem hófu nám síðastliðið vor. Að auki hefur verið mikil ásókn í ný námsúrræði skólans í sumar, bæði Háskólabrú með undirbúningsáföngum og sumarönn á Háskólabrú.
Stærsta brautskráning atvinnuflugnema á Íslandi
Flugakademía Keilis - Flugskóli Íslands brautskráði 78 nemandur úr atvinnuflugmannsnámi skólans og er þetta stærsta einstaka brautskráning atvinnuflugnema á Íslandi. Samtals hafa 410 nemendur útskrifast sem atvinnuflugmenn frá Keili.
Björn Ingi Knútsson, forstöðumaður Flugakademíu Keilis - Flugskóla Íslands stýrði útskrift og afhenti atvinnuflugmönnum prófskírteini ásamt Davíð Brá Unnarssyni, yfirkennara verklegrar deildar.
Kayla Jo Baranowski fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur með 9,5 í meðaleinkunn. Fékk hún gjafir frá Norlandair, Air Atlanta og Bluebird Nordic. Ræðu útskriftarnema í atvinnuflugnámi hélt Margrét Þórhildur Maríudóttir.
Næstu bekkir í Flugakademíu Keilis - Flugskóla Íslands hefjast í lok ágúst 2020.
Fjölmenn brautskráning ÍAK styrktarþjálfara
22 nemendur brautskráðust sem ÍAK styrktarþjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis og er þetta stærsti útskriftarhópur styrktarþjálfara á Íslandi til þessa. Með útskriftinni hafa 92 einstaklingar lokið styrktarþjálfaranámi frá skólanum og samtals yfir sjöhundruð þjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis.
Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp og afhenti prófskírteini ásamt Haddý Önnu Hafsteinsdóttur, verkefnastjóra.
Anna Guðný Elvarsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur með 9,82 í meðaleinkunn sem er næst besti árangur í náminu frá upphafi. Hún fékk TRX bönd frá Hreysti sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Reginn Þórarinsson flutti ræðu útskriftarnemenda fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis.
ÍAK styrktarþjálfaranámið er sniðið til að mæta þörfum fólks með grunnþekkingu á íþrótta- og þjálfarafræðum og vilja bæta við þekkingu sína til að geta unnið einstaklingsmiðað með styrktar- og ástandsþjálfun íþróttamanna. Námskeiðið nýtist einnig íþróttamönnum sem vilja ná hámarksárangri í sinni íþrótt.