08.06.2018
Keilir brautskráði 175 nemendur við hátíðlega athöfn á Ásbrú föstudaginn 8. júní síðastliðinn. Við athöfnina brautskráðust nemendur úr þremur skólum Keilis: Háskólabrú, Íþróttaakademíu og Flugakademíu. Þetta er fjölmennasta útskrift í sögu Keilis og hafa nú samtals 3.208 nemendur lokið námi við skólann frá upphafi.
Nærri 1.700 nemendur hafa útskrifast af Háskólabrú frá upphafi
Háskólabrú Keilis brautskráði 87 nemendur úr þremur deildum skólans. Eftir útskriftina hafa yfir 150 nemendur Háskólabrúar lokið námi það sem af er ársins, en í ágúst bætist auk þess við útskritarhópur úr Verk- og raunvísindadeild skólans. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp og þakkaði sérstaklega Gísla Hólmari Jóhannssyni fyrir framlag hans til kennslu á Háskólabrú, en Gísli hlaut á dögunum viðurkenningu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands sem framúrskrarandi kennari ársins 2018.
Dúx Háskólabrúar var Sigríður María Sigurðardóttir með 9,29 í meðaleinkunn. Fékk hún bók frá Íslandsbanka og spjaldtölvu frá Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þá fékk Halldór Sævar Grímsson menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á Háskólabrú og eftirtektarverða þátttöku í félagsstörfum. Jón Bjarni Ísaksson flutti ræðu útskriftarnema.
Með útskriftinni hafa samtals 1.685 nemendur lokið Háskólabrú Keilis og hafa lang flestir þeirra haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Metfjöldi umsókna er í Háskólabrú Keilis fyrir haustönn 2018 og fjölgar þeim annað árið í röð. Nú geta nemendur valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu, auk þess sem boðið er upp á alþjóðlega Háskólabrú á ensku.
Aukning nemenda í flugtengdu námi
Flugakademía Keilis útskrifaði fjórtán atvinnuflugnema og hafa þá samtals 42 atvinnuflugmaður útskrifast úr skólanum það sem af er ársins. Mikil aukning hefur verið í flugtengt nám í Keili á undanförnum árum og hefur verið fullmannað í atvinnuflugnám undanfarin misseri. Samtals hafa 217 einstaklingar lokið atvinnuflugmannsnámi frá upphafi. Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíunnar, flutti ávarp. Dúx var Hjörtur Ólafsson með 9,54 í meðaleinkunn og fékk hann gjafabréf frá WOWair og bók frá Icelandair. Ræðu útskriftarnema flutti Telma Rut Frímannsdóttir.
Fyrstu einkaþjálfarar Keilis brautskráðir með evrópska vottun
Samtals 54 nemendur brautskráðust sem ÍAK þjálfarar úr Íþróttaakademíu Keilis, 42 einkaþjálfarar og 12 styrktarþjálfarar. Með útskriftinni hafa 645 einstaklingar lokið þjálfaranámi frá Keili. Arnar Hafsteinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíu Keilis flutti ávarp. Bergrún Ingólfsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í ÍAK einkaþjálfun með 9,78 í meðaleinkunn og Linda Björk Árnadóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur í ÍAK styrktarþjálfun með 9,23 í meðaleinkunn. Þau fengu bæði TRX bönd frá Hreysti. Íris Hrönn Kristinsdóttir flutti ræðu útskriftarnemenda fyrir hönd Íþróttaakademíu Keilis.
Julian Berriiman, formaður Professional Standards Committee Europe Activefutti ávarp fyrir ÍAK einkaþjálfara, en ÍAK einkaþjálfaranám Keilis hlaut á árinu alþjóðlega viðurkenningu og vottun á vegum Europe Active stofnunarinnar. Vottunin er gæðastimpill á því námi sem skólinn hefur boðið upp á undanfarin ár og mun auka sýnileika útskrifaðra nemenda á alþjóðavísu, en framvegis verða útskrifaðir einkaþjálfarar skráðir í EREPS gagnagrunn þeirra og öðlast þar með evrópska vottun á færni sinni.
Fyrsta útskrift fótaaðgerðafræðinga
Sjö nemendur brautskráðust í fyrstu útskrift námsbrautar Keilis í fótaaðgerðafræði. Sigríður Lovísa Sigurðardóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan námsárangur með 9,0 í meðaleinkunn og fékk verkfæri fyrir fótaaðgeðarfræðinga frá heildsölunni Áræði og ársgjald frá Félagi íslenskra fótaaðgerðafræðinga. Keilir hefur boðið upp á nám í fótaaðgerðafræði frá febrúar 2017 og stunda að jafnaði á annan tug nemenda námið hverju sinni. Fótaaðgerðafræði er löggilt starfsgrein og teljast fótaaðgerðafræðingar til heilbrigðisstétta.
Samtals hafa 76 nemendur lokið leiðsögunámi
Íþróttaakademía Keilis og Thompson Rivers University í Kanada brautskráðu 13 nemendur úr leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku. Námið hefur vakið athygli bæði meðal íslenskra og erlendra nemenda og hafa samtals 76 nemendur útskrifast á undanförnum fimm árum meðal annars frá Kanada, Grænlandi, Chile, Indlandi, Noregi og Spáni, auk Íslands. Iain Stewart-Patterson, yfirkennari hjá Thompson Rivers University, flutti ávarp og Rajeev Ayer hlaut viðurkenningu fyrir bestan námsárangur með 9,12 í meðaleinkunn. Fékk hann gjöf frá GG sjósport.
Yfir þrjúþúsund nemendur á tíu árum
Samtals hafa 3.208 nemendur lokið námi við Keili frá því að fyrstu nemendur brautskráðust fyrir tíu árum síðan. Í ræðu sinni minnti Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis meðal annars útskriftarnema á þær ákvarðanir sem hver og einn tekur og ber ábyrgð á. Að veganesti þeirra eftir námið í Keili verði að þau elski að takast á við nýjar áskoranir, að skapa sér nýjar aðstæður og að þau finni fyrir öryggi hvar sem þau eru. Þannig munu tækifærin streyma til þeirra í framtíðinni.
Umsóknarfrestur í nám á haustönn 2018 er til 11. júní næstkomandi.
Myndir frá útskrift Keilis 8. júní 2018 (ljósmyndari: Oddgeir Karlsson)