23.05.2019
Flugskóli Íslands útskrifaði alls 55 nemendur úr atvinnuflugnámi skólans við hátíðlega athöfn í Háskólabíó þann 22. maí síðastliðinn. Var þetta jafnframt síðasta útskrift Flugskóla Íslands, einum elsta starfandi flugskóla landsins, en Keilir keypti rekstur hans fyrr á árinu.
Yfir þúsund nemendur hafa lokið atvinnuflugnámi frá Flugskóla Íslands síðan skólinn hóf starfsemi árið 1998. Nemendur sem útskrifuðust við þessi tímamót voru fyrstu nemendur úr samtvinnuðu atvinnuflugnámi skólans sem hófu nám haustið 2018 í tveimur bekkjum. Þessir nemendur munu síðan ljúka verklegri þjálfun í Flugakademíu Keilis.
Tæplega þriðjungur nemenda konur
Af þeim 55 nemendur sem útskrifuðust við athöfnina voru 16 konur og hlutfall kvenna aldrei verið jafn hátt, en á undanförnum árum hefur kvenkyns nemendum í atvinnuflugi á Íslandi fjölgað ört. Er það til marks um breytt viðhorf samfélagsins og því ber að fagna.
Haukur Marian Suska fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur í atvinnuflugmannsnámi með 9,6 í lokaeinkunn. Fékk hann gjafir frá Icelandair, Bluebird Nordic, Air Atlanta, Air Iceland Connect, Norland Air og Flugskóla Íslands. Semidúx var Arney Sigurgeirsdóttir með 9,58 í lokaeinkunn og munaði því einungis 0,02 stigum á dúx og semidúx skólans. Fékk hún gjafir frá Air Atlanda, Air Iceland Connect, Norlandair og Flugskóla Íslands.
Baldvin Birgisson, skólastjóri Flugskóla Íslands, og Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis, fluttu ávörp. Reynir Einarsson, yfirkennari í bóklegri deild Flugskóla Íslands stýrði athöfninni, og var honum til aðstoðar Hanna María McClure, prófstjóri.
Einn öflugasti flugskóli á Norðurlöndunum verður til á Íslandi
Samanlagður fjöldi atvinnuflugnema í sameinuðum skólum Keilis og Flugskóla Íslands verða á fjórða hundrað á ársgrundvelli. Þá mun skólinn hafa til ráða 22 kennsluvélar og fullkomna flugherma. Námið verður áfram í boði bæði á höfuðborgarsvæðinu og í Keili, auk þess sem hægt verður að leggja stund á hluta bóklegs náms í fjarnámi. Rétt eins og áður mun verkleg flugkennsla fara fram á bæði alþjóðaflugvellinum í Keflavík og Reykjavíkurflugvelli, auk þess sem skólinn mun efla starfsstöðvum á landsbyggðinni líkt og unnið hefur verið að undanfarið, meðal annars á Selfossi og Sauðárkróki.
Næstu bekkir í atvinnuflugnámi á Íslandi hefjast í september.