Flugakademía Keilis og Flugskóli Íslands hafa sameinast í stærsta flugskóla á landinu undir nafninu Flugakademía Íslands. Skólinn er einn sá öflugasti á Norðurlöndunum, með á annan tug kennsluvéla og fullkomna flugherma auk þess að bjóða upp á verklega aðstöðu á alþjóðaflugvellinum í Keflavík og á Reykjavíkurflugvelli. Þá fer bóklegt nám fram bæði í Hafnarfirði og á Ásbrú í Reykjanesbæ. Fjölmennasta útskrift atvinnuflugnema í sögu Íslands fór fram þann 12. júní síðastliðinn þegar samtals 78 atvinnuflugnemar brautskráðust úr náminu.
Á undanförnum árum hafa fjölmargir erlendir nemendur ákveðið að leggja stund á atvinnuflugnám á Íslandi, enda kjöraðstæður á landinu til flugnáms sem eru einstakar á heimsvísu. Ísland er svokallað open-sky sem þýðir að það eru engin höft eða lokuð svæði fyrir kennsluflug. Nemendur fá þannig verklega þjálfun við krefjandi aðstæður og tækifæri til að fljúga á einhverja áhugaverðustu flugvelli sem völ er á. Mannauðurinn sem við búum yfir er líka okkar mikilvægasta eign enda eru allir kennarar okkar stútfullir af reynslu og þekkingu, segir Arnbjörn Ólafsson, forstöðumaður markaðs- og alþjóðasviðs.
Næsti árgangur atvinnuflugmannsnema hefur nám þann 31. ágúst næstkomandi. Umsóknarfrestur er til 15. ágúst.