Í júní voru haldnar í þriðja sinn hinar vinsælu Flugbúðir Keilis. Námskeiðið er haldið á Ásbrú og dagskráin naut góðs af nálægðinni við Keflavíkurflugvöll. Um er að ræða fjögurra daga sumarnámskeið fyrir unglinga á aldrinum 13 - 16 ára og komust færri að en vildu. Segja má með sanni að þetta námskeið hafi slegið í gegn hjá fólki víðs vegar um landið, þátttakendur létu ekki langar vegalengdir stoppa sig, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Umsjónarmenn námskeiðsins voru flugkennararnir Arnar Geir Ásgeirsson og Ólafur Axel Kárason. Þeir héldu vel utan um hópinn og kynntu fyrir þeim helstu viðfangsefni flugnámsins og annarra flugtengdra greina. Góðir gestir voru fengnir til að segja frá reynslu sinni, flugumferðastjóri, flugvirki og millilandaflugmaður. Á hverjum degi var farið í vettvangsferðir, oftast inn á flugverndarsvæðið á Keflavíkurflugvelli en einnig heimsótti hópurinn Sléttuna, þar sem grasrót flugheimsins var skoðuð.
Aðstandendur Flugbúða Keilis vilja koma á framfæri þakklæti til allra þeirra aðila sem koma að þessu velheppnaða námskeiði og eru með í að gera það ógleymanlegt. Hápunktur námskeiðsins var að flestra mati heimsókn í flugskýli Icelandair eða heimsókn Landhelgisgæsluþyrlunnar TF-LÍF sem birtist óvænt þegar hópurinn var úti að skoða skýin.
Vegna mikillar eftirspurnar var öðru námskeiði bætt við og því eru enn nokkur pláss laus vikuna 11. - 14. ágúst. Nánari upplýsingar hérna.