30.11.2011
Fjöldi manns var viðstaddur formlega opnun verklegrar aðstöðu tæknifræðináms Keilis ?þann 24. nóvember síðastliðinn. Fjöldi manns var viðstaddur formlega opnun verklegrar aðstöðu tæknifræðináms Keilis ?þann 24. nóvember síðastliðinn. Meðal gesta voru fulltrúar frá Samtökum iðnaðarins, Tæknifræðingafélagi Íslands, fyrirtækjum og framhaldsskólum, auk nemenda og starfsfólk Keilis. Við opnunina kynnti Dr. Karl Sölvi Guðmundsson, forstöðumaður Orku- og tækniskólans, uppbygginu og markmið háskólanáms í tæknifræði og Daniel Coaten, lektor í efnafræði hjá Keili, sagði frá orkurannsóknum við skólann.
Auk þess voru kynningar á lokaverkefnum nokkurra nemenda á þriðja ári í tæknifræði sem tengdust meðal annars verkferlum og áhrif hita á næringu og bakteríuvöxt, notkun tankskipa til vatnsframleiðslu og framleiðslu rafmagns með efnarafölum í Grímsey.
Verkleg aðstaða og rannsóknarstofur
Í tæknifræðinámi Keilis býðst nemendum upp á fyrsta flokks smíðaaðstöðu til þess að þróa og smíða ýmisskonar tækjabúnað. Smíðaaðstaðan er um 80fm2 og er búin öllum helstu verkfærum sem þarf til til hefðbundinnar málmvinnslu. Við hönnun og frágang smiðjuaðstöðunnar var miðað við að uppfylla allar þær þarfir sem smíði minni tækjabúnaðar felur í sér auk þess sem hún hýsir tvo sjö ása iðnaðarþjarka sem nýtast nemendum í þjarkatækni, svo sem sjálfvirkni, stýritækni og samskiptum iðnaðartækja. Þjarkana má einnig nýta við forritun í framleiðslukerfum og uppsetningu véla og flæðilína.
Verkleg aðstaða tæknifræðináms Keilis er staðsett í sömu byggingu og öll almenn kennsla í Orku- og tækniskólanum fer fram. Markmið rannsóknaraðstöðunnar er að halda utan um þjónustu, samskipti og þekkingarmiðlun, ásamt því að stuðla að gagnvirkum samskiptum og verkefnum milli aðila í orkurannsóknum, atvinnulífi og menntun. Með smiðjustofunni hafa nú verið settar upp þrjár sérhæfðar rannsóknarstofur fyrir nemendur í tæknifræðinámi Keilis, en hinar tvær tengjast mekatróník tæknifræði og efnafræðirannsóknum.
Háskólanám í tæknifræði hjá Keili
Keilir býður upp á stutt, hagnýtt og nýstárlegt háskólanám í tæknifræði í samstarfi við Háskóla Íslands. Námið er sniðið að þörfum atvinnulífsins, byggir á raunverulegum verkefnum og verkviti nemenda. Nemendur ljúka BSc-gráðu í tæknifræði á þremur árum og komast því fljótt út á vinnumarkaðinn, þar sem þeir geta tekið þátt í uppbyggingu og starfsemi áhugaverðustu hugverka-, tækni- og orkufyrirtækja Íslands.