Keilir tekur þátt í samstarfsverkefni við skóla og ferðaþjónustuaðila á Ítalíu og Tyrklandi undir heitinu RARE R.O.U.T.E.S. - Responsible Original Unpolluting Tourism Entrepreneurshipeða ábyrg og ómengandi nýsköpun í ferðaþjónustu upp á hið ylhýra.
Verkefnið miðar að því að styrkja samstarf milli skóla, sveitarfélaga, opinberra stofnana og fyrirtækja með það að markmiði að leiða saman færni og þekkingu nemenda í ferðaþjónustu við menningararf, umhverfismál og þá samfélagslegu arfleifð sem ferðaþjónustuaðilar styðjast við og nýta sér á ákveðnum svæðum.
Námsefni verður þróað og starfstengd námskeið sem nýtast ferðaþjónustuaðilum sem vilja byggja á sjálfbærri og ábyrgri ferðaþjónustu. Þá verður gögnum um góðar starfsvenjur í sjálfbærri ferðaþjónustu safnað og deilt milli samstarfsaðila. Leitast verður við að styrkja stöðu ungs fólks á vinnumarkaði með eflingu starfsnáms, þekkingar og færni þeirra sem leiðtogar og frumkvöðlar innan greinarinnar.
Verkefnið, sem hlaut hæstu einkunn allra Erasmus+ umsókna á Ítalíu, er til þriggja ára og hlaut samtals 416.000 Evra styrkveitingu. Samstarfsaðilar Keilis eru starfsmenntaskólar frá Ítalíu og Tyrklandi, ICEI International Economic Cooperation Institute, ásamt ferðaþjónustuaðilum frá samstarfslöndunum. Auk þess taka Markaðsstofa Reykjaness, Samtök ábyrgrar ferðaþjónustu (AITR) og Start-Up Turismo á Ítalíu, ásamt Alþjóðlegu samtökunum um félagslega ferðaþjónustu (ISTO) þátt í verkefninu.