15.06.2019
Flugakademía Keilis útskrifaði 43 atvinnuflugnema föstudaginn 14. júní síðastliðinn. Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíunnar, flutti ávarp. Dúx var Hekla Kolbrún Sæmundsdóttir með 9,54 í meðaleinkunn og fékk hún bókagjöf frá Icelandair. Ræðu útskriftarnema flutti Hrannar Páll Kristbjargarson.
Með útskriftinni hafa samtals 71 atvinnuflugnemar lokið bóklegu námi í skólanum það sem af er ársins og samtals 289 nemendur frá upphafi skólans árið 2009.
Þetta var fyrsta brautskráning atvinnuflugnema Keilis eftir að skólinn sameinaðist Flugskóla Íslands fyrr á árinu. Eftir sameininguna verður til einn öflugasti flugskóli á Norðurlöndum, með á rúmlega tuttugu kennsluvélar og á fjórða hundrað flugnemendur. Með útskrift Flugskóla Íslands, sem fór fram í lok maí, hafa samtals 126 atvinnuflugnemar lokið bóklegu námi á Íslandi það sem af er ársins.
Áfangaskipt og samtvinnað atvinnuflugnám hefst næst í byrjun september. Námið verður í boði á höfuðborgarsvæðinu og á Ásbrú, auk þess sem hægt verður að leggja stund á hluta bóklegs náms í fjarnámi. Rétt eins og áður mun verkleg flugkennsla fara fram á bæði alþjóðaflugvellinum í Keflavík og Reykjavíkurflugvelli, auk þess sem skólinn mun efla starfsstöðvum á landsbyggðinni líkt og unnið hefur verið að undanfarið, meðal annars á Selfossi og Sauðárkróki.
Myndir frá útskrift Keilis 14. júní 2019 (ljósmyndari: Oddgeir Karlsson)