Fara í efni

Hæsta meðaleinkunn frá upphafi í Háskólabrú Keilis

Dúx Háskólabrúar var Pétur Arnar Úlfarsson með 9,74 í meðaleinkunn sem er sú hæsta í sögu námsins.
Dúx Háskólabrúar var Pétur Arnar Úlfarsson með 9,74 í meðaleinkunn sem er sú hæsta í sögu námsins.
Keilir brautskráði 21 nemanda af Verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar föstudaginn 14. ágúst 2020 og hafa þar með alls 186 nemendur lokið náminu á þessu ári. 
 
Yfir 2000 nemendur hafa útskrifast af Háskólabrú 
 
Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis, flutti ávarp og stýrði athöfninni, en vegna aðgangstakmarkanna var athöfnin send út í beinu streymi. Hægt er að nálgast upptöku af útskriftinni á YouTube rás Keilis. 
 
Með útskriftinni hafa alls 186 nemendur lokið Háskólabrú á þessu ári og samtals yfir 2.000 nemendur frá fyrstu brautskráningu Háskólabrúar Keilis árið 2008. Skólasetning Háskólabrúar fór fram fyrr í vikunni og er heildarfjöldi nemenda í frumgreinanámi í Keili nú um 300 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Er þetta fjórða árið í röð þar sem metfjöldi umsókna berst í Háskólabrú Keilis.  
 
Hæsta meðaleinkunn í sögu námsins
 
Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp auk þess sem Kristófer Aron Garcia flutti ræðu útskriftarnema. Dúx var Pétur Arnar Úlfarsson með 9,74 í meðaleinkunn sem er hæsta meðaleinkunn í sögu Háskólabrúar Keilis. Fékk hann gjöf frá HS orku sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur.  
 
Keilir hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla frá árinu 2007 og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.  
 
Keilir hefur markað sér sérstöðu í að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning við nemendur. Kennsluhættir miða við þarfir fullorðinna nemenda, miklar kröfur eru gerðar um sjálfstæði í vinnubrögðum og eru raunhæf verkefni lögð fyrir. Kannanir í Háskóla Íslands á gengi nýnema hafa sýnt að nemendur sem koma úr Háskólabrú Keilis eru meðal þeirra efstu yfir þá sem telja sig vel undirbúna fyrir háskólanám.
 
Myndir tók Oddgeir Karlsson