Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika ferðaþjónustu hérlendis og erlendis eru mýmörg tækifæri sem tengjast menntun, endurmenntun og þjálfun starfsfólks í ferðaþjónustu og tengdum greinum.
Keilir hefur því á undanförnum mánuðum unnið að gerð fjölbreyttra ferðaþjónustutengdra námskeiða sem verða í boði frá og með janúar 2021. Meðal þeirra námskeiða sem verða í boði eru:
- Frumkvöðlafræði
- Lagaumhverfi ferðaþjónustunnar
- Náttúrvernd og umhverfismál
- Notkun samfélagsmiðla í ferðaþjónustu
- Sjálfbærni ferðaþjónustunnar
- Tölvukerfi ferðaþjónustunnar
- Vöruþróun í ferðaþjónustu
- Þjónusta við viðskiptavini
Námskeiðin verða í boði bæði á ensku og íslensku, kennd í fjarnámi með reglulegum staðlotum í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ. Nánari upplýsingar um námskeiðin má nálgast hér.
Tækifæri til að skerpa á færni og þekkingu
Staða ferðaþjónustunnar á landsvísu - og sérstaklega á Suðurnesjunum - er afar slæm vegna heimsfaraldursins sem nú geysar. Hátt atvinnuleysi, fyrirtæki í miklum hallarekstri og stöðnun innan greinarinnar. Á slíkum tímum eru hinsvegar áður óþekkt tækifæri til þess að ýta undir og stuðla að nýsköpun, innlendum og erlendum samstarfsverkefnum, uppbyggingu tengslanets, fræðslu og endurmenntun, ásamt því að vinna að greiningu og framtíðarmarkmiðum á ferðaþjónustu.
Í þessu umhverfi eru tækifæri til þess að búa til vettvang sem heldur utan um þessa helstu þætti í virðiskeðju ferðaþjónustunnar (fræðslu, nýsköpun, tengslaneti, framþróun), utanumhald sem á sér stað bæði í fýsískri aðstöðu ásamt aðgangi ferðaþjónustuaðila, frumkvöðla og hagsmunaaðila að sömu þjónustu á vefnum.
Markaðsstofa Reykjaness, Íslenski ferðaklasinn og Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, undirrituðu nýverið samkomulag um stofnun Nýsköpunarakademíu ferðaþjónustunnar. Með stofnun akademíunnar verður til sameiginlegur vettvangur ferðaþjónustu, menntastofnana og hagsmunaaðila til að efla nýsköpun, fræðslu, endurmenntun og tengslanet, ásamt því að stuðla að framþróun, sjálfbærni og ábyrgri ferðaþjónustu sem og þverfaglegum innlendum og erlendum samstarfsverkefnum.
Alþjóðleg samstarfsverkefni um fræðslu í ferðaþjónustu
Keilir hefur góða reynslu af því að þróa nám í ferðaþjónustu, en skólinn hefur frá árinu 2013 boðið upp á sérhæft leiðsögunám í ævintýraferðamennsku í samstarfi við kanadíska háskólann Thompson Rivers University. Þá hefur Keilir boðið upp á fjölda sumarnámskeiða fyrir fólk á öllum aldri í á undanförnum árum sem tengjast útivist og afþreyingarferðamennsku.
Samhliða þessum verkefnum einnig koma að nýju Erasmus+ verkefni Keilis sem tengist þróun námskeiða í sjálfbæri og ábyrgri ferðaþjónustu, ásamt aðkomu að Vestnorrænu verkefni innan leiðsögunáms í ævintýraferðamennsku sem snýr að fjarnámsáfanga í afþreyingarferðamennsku á Grænlandi, Íslandi og í Færeyjum. Það verkefni er styrkt af NATA - North Atlantic Tourism Association.
Verkefnastjóri ferðaþjónustunáms Keilis
Þórir Erlingsson, aðjúnkt við ferðamáladeild Háskólans á Hólum, er verkefnastjóri þróunar á námsframboði tengt ferðaþjónustu hjá Keili. Þórir er vel til þess fallinn að leiða þessi verkefni. Hann er með meistaragráðu í International Hospitality and Tourism Management frá Háskólanum í Suður-Karolínu í Bandaríkjunum, tók þátt í þróun áfanga í sjálfbærni og ferðaþjónustu við Kennesaw State University í Atlanta og hefur kennt í ferðamáladeild Háskólans á Hólum frá árinu 2017.
Nánari upplýsingar á thorire@keilir.net eða í síma 892 8003.