Keilir - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs útskrifaði 123 nemendur við hátíðlega athöfn í Hljómahöll í Reykjanesbæ föstudaginn 31. maí. Athöfnin var vel heppnuð og fjölsótt og hafa nú 4928 einstaklingar útskrifast úr námi við skólann.
Í athöfninni voru útskrifaðir 76 nemendur af Háskólabrú, 28 úr einka- og styrktarþjálfaranámi og 19 úr stúdentsbraut í tölvuleikjagerð.
Saga Matthildur hóf athöfnina með ljúfu tónlistaratriði fyrir viðstadda. Því næst flutti Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis, ávarp og stýrði sjálfri athöfninni.
Háskólabrú Keilis brautskráði samtals 69 í fjarnámi. Berglind Kristjánsdóttir, forstöðumaður Háskólabrúar, flutti ávarp fyrir hönd starfsmanna og afhenti skírteini og viðurkenningarskjöl til útskriftarnema. Dúx Háskólabrúar var Guðmundur I. Halldórsson með 9,78 í meðaleinkunn og fékk hann peningagjöf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Þórey Jóhanna Óskarsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema Háskólabrúar.
Háskólabrú hefur boðið upp á aðfaranám til háskóla í 17 ár og hafa á þeim tíma átt sér stað miklar framfarir í kennsluháttum samhliða breyttum þörfum og kröfum nemenda. Nú geta nemendur því valið að sækja Háskólabrú í staðnámi eða fjarnámi, bæði með og án vinnu sem og viðbótarnám við stúdentspróf á verk- og raunvísindadeild. Boðið er upp á Háskólabrú í samstarfi við Háskóla Íslands og gildir námið til inntöku í allar deildir háskólans.
Menntaskólinn á Ásbrú brautskráði samtals 19 nemendur af stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Ingigerður Sæmundsdóttir, fráfarandi forstöðumaður, afhenti skírteini. Dúx Menntaskólans á Ásbrú var Júlía Gunnlaugsdóttir með 9,6 í meðaleinkunn og fékk hún peningagjöf frá Arion banka og Keili sem viðurkenningu fyrir góðan námsárangur. Emilía Guðrún Kolbrúnar Valgarðsdóttir flutti ræðu fyrir hönd útskriftarnema MÁ.
Þetta var sjötta útskrift Menntaskólans á Ásbrú sem hóf starfsemi haustið 2019 þegar fyrstu nemendur skólans hófu nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð. Stúdentsbrautin er skipulögð sem þriggja ára nám þaðan sem nemendur útskrifast með staðgóða þekkingu í ýmsu sem tengist tölvuleikjagerð og fleiri skapandi greinum. Námið byggir á hagnýtum verkefnum með sterkri tengingu við atvinnulífið þar sem lögð er áhersla á færni til framtíðar, nútíma kennsluhætti og vinnuaðstöðu í sérklassa.
Heilsuakademían brautskráði 14 nemendur úr einkaþjálfaranámi og 14 nemendur úr styrktarþjálfaranámi. Þóra Kristín Snjólfsdóttir, verkefnisstjóri, afhenti skírteini og viðurkenningarskjöl til útskriftarnema. Dúx í einkaþjálfarnáminu var Thea Möller Þorleifsson með 9,65 í meðaleinkunn og dúx í styrktarþjálfaranáminu var Gunnlaugur Bjarnar Baldursson með 9,86 í meðaleinkunn, hlutu þau bæði gjöf frá Hreysti sem viðurkenningu fyrir góðan árangur. Marta Sif Baldvinsdóttir hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnema í Heilsuakademíunni. Nám í einkaþjálfun miðar að því að undirbúa nemendur fyrir störf við þjálfun almennings og mikil áhersla er lögð á heildræna nálgun sem næst með því að tengja bóklega og verklega hluta námsins vel saman. Námið er viðurkennt af Menntamálaráðuneytinu sem námsbraut á framhaldsskólastigi. ÍAK styrktarþjálfaranám er hagnýtt, hnitmiðað og sniðið til þess að mæta þörfum fólks sem hefur áhuga á að vinna með íþróttafólki.
Háskóli Íslands veitti tveimur útskriftarnemum Keilis viðurkenningu fyrir góðan námsárangur, jákvæðni og góða leiðtogahæfni. Jóhann Grétar Jóhannsson sem brautskráðist af Háskólabrú og Emilía Guðrún Kolbrúnar Valgarðsdóttir stúdent úr Menntaskólanum á Ásbrú nutu heiðursins og hlutu gjafabréf frá Háskóla Íslands, auk styrks sem nemur upphæð skráningargjalda á skólagjöldum fyrsta skólaárið.
Keilir stendur frammi fyrir breytingum í kjölfar vorannar, en brautir ÍAK og MÁ færast í annan framhaldsskóla eftir sumarið 2024. Þessi útskrift frá vorönn var því sú síðasta af stúdentsbraut í tölvuleikjagerð og úr einka- og styrktarþjálfaranámi frá Keili. Háskólabrú Keilis heldur áfram fullri starfsemi og innritun fyrir haustönn stendur yfir.