Á mánudaginn síðastliðinn fengum við skemmtilega heimsókn til okkar á Ásbrú þegar fulltrúar frá Þekkingarsetrum landsins komu til okkar í höfuðstöðvar Keilis. Fulltrúar þekkingarsetranna sátu ársfund Samtaka Þekkingarsetra dagana 22.-23. ágúst sem haldinn var af Þekkingarsetri Suðurnesja í ár. Fundinn sóttu forstöðumenn og starfsmenn sex þekkingarsetra sem staðsett eru víðsvegar um landið og fór hópurinn í skoðunarferð um Reykjanesið sem hófst með heimsókn í Keili.
Keilir er einn af stofnaðilum Þekkingarseturs Suðurnesja sem stofnað var fyrir rúmum 10 árum síðum. Setrið hefur það að markmiði meðal annars að vera miðstöð rannsóknarstarfs í náttúrufræðum og tengdum greinum á Suðurnesjum sem og að auka menntunarmöguleika og þjónustu á sviði háskólanáms og rannsóknarstarfs á svæðinu.
Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis og Óskar Pétur Sævarsson, forstöðumaður Flugakademíunnar, tóku á móti hópnum og sýndu þeim húsnæðið. Boðið var upp á flugferð í einum af flughermum skólans sem vakti mikla lukku meðal viðstaddra.
„Heimsóknin og móttökurnar hjá Nönnu og Óskari voru frábær, mjög skemmtilegt var að fá kynningu á starfsemi Flugakademíunnar og að skoða aðstöðuna. Uppúr stóðu tilraunir hópsins í flugherminum sem voru misárangursríkar en mikil skemmtun að fylgjast með. Alveg frábært að fá tækifæri til að prófa og þökkum við kærlega fyrir okkur“ sagði Hanna María Kristjánsdóttir, forstöðumaður Þekkingarseturs Suðurnesja, eftir heimsóknina.
Við þökkum fulltrúum Þekkingarsetra landsins kærlega fyrir komuna.