Á miðvikudaginn 5. október síðastliðinn kom Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í heimsókn í Keili. Þar hitti hún starfsfólk og nemendur Keilis, spjallaði við forstöðumenn og nemendur Menntaskólans á Ásbrú sem stunda nám á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð.
Áslaug Arna skellti sér einnig í létta flugferð í flughermi Flugakademíu Íslands og vakti athygli hversu vel tókst að lenda vélinni á Reykjavíkurflugvelli. „Ég var búin að æfa mig í Hafnarfirði“ sagði Áslaug létt í bragði og vísaði þar til heimsóknar sinnar á dögunum í flughermi Icelandair. Ráðherra skoðaði einnig afrakstur nemenda á stúdentsbraut í tölvuleikjagerð þar sem nemendur sýndu henni tölvuleiki sem þeir höfðu hannað frá grunni. „Það var gaman að prófa tölvuleiki hjá þessum flottu krökkum. Það eru fjölmörg störf á þessu sviði á Íslandi og gríðarlega spennandi framtíð“.
„Þetta var frábær og vel skipulögð heimsókn þar sem ég fékk að kynnast skólanum, fjölbreyttum námsbrautum, Háskólabrúnni, Flugakademíunni, Heilsuakademíunni og stúdentsbrautinni í tölvleikjagerð hjá Menntaskólanum á Ásbrú. Ég þakka kærlega fyrir mig“ sagði Áslaug í lok heimsóknar.
Við þökkum Áslaugu Örnu kærlega fyrir heimsóknina.