Fara í efni

Hvað er flippuð kennsla?

Grein eftir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóra Keilis, um speglaða kennslu og breytta kennsluhætti sem birtist í Morgunblaðinu 26. nóvember 2013.

Síðastliðið vor var birt könnun meðal stúdenta Háskóla Íslands um viðhorf þeirra til kennslustunda í skólanum. Niðurstaðan var sláandi: Almennt virtist stúdentum leiðast í tímum og þeir ekki nýtast sem vænta mátti. Sumir gengu svo langt að segja fyrirlestraformið dautt.

Þetta á ekki að koma á óvart í ljósi þess að skipulag skóla hefur í grunninn haldist óbreytt í árhundruð: Hinn fróði stendur fyrir framan hópinn fáfróða og messar. Hins vegar hefur hinn rafræni heimur ruðst inn á markaðinn og er orðinn aðalupplýsingaspretta almennings. Fólk gúglar, fer á You tube twitter, wilkipedia eða aðra þá þræði sem veita upplýsingar. Í raun má finna nánast hvað sem er á vefnum. Kennslubókin, sem lengi var lykillinn að fróðleik, er orðin úrelt daginn sem hún kemur úr prentun.

Skólann inn í upplýsingasamfélag

Í grunninn má segja að ríkjandi skipulag í skólum taki mið af hugmyndum iðnaðarsamfélagsins þar sem allir eiga að koma á sama tíma í vinnuna og gangast undir sama skipulag. Hugmyndir á borð við einstaklingsmiðað nám (falleg orð sem eru í hávegum höfð í lögum og fræðum) fara engan veginn saman við verksmiðjuskipulagið þar sem fjöldinn, magnið, ræður ríkjum. En þannig er skólakerfið í grunninn með sínum fastskipuðu kennslustundum, frímínútum og fjöldakennslu.

Rafrænt upplýsingasamfélag opnar gáttir fyrir breyttri hugsun og breyttu skipulagi. Skólakerfið hefur setið nokkuð eftir í þeirri þróun. Einstaklingar, ekki síst hinir yngri, hafa hins vegar séð tækifærin til upplýsingaöflunar með nýrri tækni. Fyrir vikið hefur skapast gjá milli fólks og skóla. Skólakerfið er í raun kennaramiðað þar sem kennarinn í tímunum er í aðalhlutverki (og sumir meira að segja mjög góðir í því) en nemandinn er meiri þiggjandi sem hlýðir á meistarann eða gegnir fyrirmælum hans. Halda má því fram að þessi gjá – þessir ólíku menningarheimar – leggi grunninn að útbreiddum námsleiða fólks í dag. Þessu má breyta. Spegluð kennsla (flipped classroom) eða vendikennsla er ein leið.

Frábær reynsla

Á síðustu misserum hefur spegluð kennsla rutt sér til rúms – ekki síst í Bandaríkjunum. Með henni er vettvangi námsins snúið við. Nemendur hlusta á kynningar kennara sinna heima en koma í skólann til að sinna verkefnum. Með því móti er nemandinn settur í aðalhlutverk en kennarinn verður leiðtoginn til aðstoðar. Reynslan er einkar jákvæð. Nemendur verða virkari, agabrotum fækkar, árangur á samræmdum prófum hækkar o.s.frv. Speglunin felur í sér nýja nálgun í lærdómsferlinu. Hún mætir einstaklingsbundnum þörfum og virkjar nemendur. Hún nýtir líka þá tækni sem nemendur hafa tileinkað sér fyrir löngu en skólakerfið verið heldur seinna til. Með rökum má halda því fram að speglunin leiði til aukins jafnréttis til náms og dragi úr líkum á brottfalli. Reynsla þeirra sem reynt hafa hvetur okkur til að stíga skref í þessa átt.

Hvað er spegluð kennsla (flipped classroom)?

Spegluð kennsla felur í sér að hlutverki kennara og nemenda er snúið við – þeir venda kvæði sínu í kross. Kennari tekur upp allt það sem hann vill koma á framfæri við nemendur sína og notar til þess þá tækni sem til er (glærur, teikningar, myndbönd o.s.frv.). Efni þetta, ekki lengra en 5-15 mínútur hver bútur, er vistað á netinu, aðgengilegt fyrir nemendur.

„Heimaverkefni“ nemenda er að hlusta á þessar kynningar kennarans eftir námsáætlun. Þetta geta þeir gert eins oft og þá lystir og á tíma sem þeim (nemendum) hentar.

Kennslustundir snúast um verkefnavinnu. Nemendur steypa sér yfir verkefni,tengd efninu, og kennarinn fer á milli hópa og veitir þeim aðstoð er þurfa. Þannig fá nemendur aðstoð sérfræðings við heimanámið sem ella væri ekki til staðar. Með því móti má segja að jafnræði nemenda til náms sé aukið því ekki hafa allir tök á að fá aðstoð við verkefni heimavið. Þar byrja gjarna að skilja leiðir.

Kennarar óþarfir?

Einhver kann að spyrja um hlutverk kennara í speglaðri kennslu. Dregur úr þörf fyrir kennurum? Svar við þeirri spurningu er einfalt: Þörf fyrir góða kennara verður síst minni en áður. Hins vegar breytist hlutverk þeirra og skipulag vinnunnar. Í tímunum verður kennarinn ekki dansandi í aðalhlutverkinu heldur beinist athyglin að virkni nemenda. Skipulag námsins hvílir algjörlega á herðum kennara, kynningarnar á netinu koma frá þeim en ekki síst verður hlutverk kennarans sem leiðtoga í tímunum mikilvægt. Þeir raða í hópa eftir stöðu hvers og eins, þeir „rölta á milli“ segja til, aðstoða, hvetja og eru alltumvefjandi í verkefnamiðuðum kennslustundum þar sem virkni nemenda er aðalatriðið.

Reynslan

Í Bandaríkjunum hófst spegluð kennsla fyrir tilviljun. Nemandi var veikur og kennarar hans höfðu áhyggjur af því að hann missti af mikilvægum þáttum námsins. Þá datt þeim í hug þetta snjallræði að taka upp sérstaka kynningu og senda sjúklingnum. Sá varð svo hrifinn að hann sendi áfram á félaga sína. Fyrr en varði fór þetta sem eldur í sinu. Er nú svo komið að kennararnir tveir, Saam Aaron og Jonathan Bergmann, eru margverðlaunaðir fyrir framtakið og hafa ekki undan að veita ráð kennurum og skólum sem vilja taka upp speglaða kennslu. Vinsældirnar koma ekki á óvart. Ánægja nemenda hefur vaxið til muna í náminu, virkni þeirra er allt önnur og betri, tengsl milli nemenda og kennara hafa eflst, sem og samstarf kennara. Gildir þetta um öll skólastig. Frá leikskólum til skóla á borð við MIT og Stanford. Árangur á samræmdum prófum hækkaði til muna hjá skólum sem tóku upp speglaða kennslu og agavandamál eru metin hafa minnkað um 60%. Skal engan furða ef nemendur verða virkari í náminu fer orkan ekki í annað á meðan.

Í dæmigerðri, hefðbundinni kennslu má segja að kennarinn sé veitandi í 75% tímans en virkni nemenda í um fjórðungi tímans.

Í speglaðri kennslu fara 80% tímans í að nemendur sjálfir sinna verkefnum undir handleiðslu kennara. Þarna liggur hinn stóri munur. Rannsóknir á námsferlinu og, starfsemi heilans benda eindregið til þess að virkur nemandi sé líklegri til að ná árangri í námi heldur en sá sem bara þiggur. „Segðu mér og ég gleymi, sýndu mér og ég gæti munað, virkjaðu mig og ég mun skilja.“

Betra nám?

Frá því Keilir hóf störf fyrir rúmum fimm árum hefur hluti námsins farið fram með spegluðum hætti, ekki síst í fjarnáminu. S.l. vor var tekin sú sameiginlega ákvörðun innanhúss að stíga skrefið til fulls og bjóða nemendum upp á speglaða kennslu í öllum greinum á Háskólabrú sem og í flestum greinum annarra skóla Keilis. Kennarar skipulögðu vinnu sína að nýju og „stukku út í djúpu“. Fram til þessa hefur ríkt gífurleg ánægja með þetta fyrirkomulag – jafnt meðal nemenda og kennara. Keilir stóð fyrir tveimur fundum um efnið s.l. vor (í samstarfi við Símey á Akureyri og Epli.is). Húsfyllir var á báðum fundum og komu sumir kennarar langt að. Hvað segir það okkur? Kennarar vilja sjá breytingar á „kerfinu“ í sinni víðustu merkingu. Engir skynja betur en kennarar hvernig umhverfi nemenda með tölvum og græjum er smám saman að fjarlægjast skólana með viðeigandi afleiðingum í skólaleiða, agavandamálum o.s.frv. Nú er lag að bregðast við. Skipuleggja námið út frá nemendum og nýta þá tækni sem í boði er. Reynslan sýnir að spegluð kennsla getur orðið leið að því markmiði að gera skólana enn betri.  Tökum höndum saman. Færum skólakerfið til nemenda. Spara má ríki og sveitarfélögum hundruð milljóna en umfram allt skapa áhugasamari og glaðari nemendur. Í því felst líka mikill sparnaður. „Ef nemendur geta ekki lært af kennslu okkar skulum við kenna þeim eins og þeir læra.“ (Ignacio Estrada). 

Hjálmar Árnason,
framkvæmdastjóri Keilis