Fara í efni

Grein eftir Hjálmar Árnason: Hvar lærir fólk?

Eftirfarandi grein eftir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóra Keilis, birtist í Morgunblaðinu þriðjudaginn 19. september 2017.

Hvar lærir fólk?

Ástralir virðast nokkuð framsæknir í kennsluháttum. Á það ekki síst við hvernig þeir nálgast nemendur sína. Nýleg könnun í Ástralíu sýnir að aukning nemenda í staðnámi eingöngu nemur um 18%. Nám, sem eingöngu er fjarnám, hefur vaxið um 40% en nám sem bæði má stunda sem staðnám og fjarnám hefur vaxið um 50 % á síðustu fimm árum. Hvað veldur?

Í athygliverðri grein er bent á að nú sé svokölluð „digital“ kynslóð að komast á háskólastig. Unga fólkið, sem fæðist inn í hinn rafræna veröld, hefur allan heiminn undir. Þessir krakkar eru ekki að takmarka þekkingarleit sína við einhverja eina stofnun eða loka sig endilega inni milli fjögurra veggja hefðbundinnar skólastofu. Þau sækja sér þekkingu út um allt og hvaðan sem er.

Þau kynntust á netinu

Stöðugt fleiri háskólar (s.s. Stanford og MIT) eru farnir að setja námskeið á netið og bjóða velkomna nemendur hvaðanæva að. Gamla, góða skólastofan er orðin úrelt. Skólar, sem ekki breyta sér, munu einfaldlega hverfa. Og mega hverfa. Nú munu einhverjir spyrja um hin mikilvægu félagslegu tengsl. Eiga þau þá að hverfa fyrir rafrænu námi? Svarið við því er einfalt að framsæknir skólar bjóða nú upp á hópavinnu á netinu og innan veggja skólanna. Þá sýnir reynsla margra að nemendur mynda fleiri tengsl í gegnum netið en ella væri. Hver þekkir t.d. ekki að hafa endurnýjað kynni við gömul fermingarsystkini eða bekkjar á Fjesbókinni? Lifandi kennarar beinlínis stuðla að því að nemendur vinni saman að verkefnum á netinu eða í skólum eftir því sem hentar.

Latína eða gagnrýnin hugsun?

En þetta lýtur ekki bara að því hvernig efni er fram borið til nemenda. Einnig þarf að skoða HVAÐ eiga nemendur að læra. Svarið hérlendis er enn mjög í anda Latínuskólans utan hvað bæði gríska og latína hafa látið nokkuð undan meðan aðrar afskaplega hefðbundnar greinar ríghalda sér. Því er spáð að á næstu árum muni fjölmörg störf hverfa vegna tæknivæðingar en ný störf munu leysa hin fyrri af hólmi. The World WEconomic Forum nefnir 10 atriði sem nemendur í skólum þurfi að tileinka sér:

  1.  Leysa úr flóknum vandamálum.
  2. Gagnrýnin hugsun.
  3. Sköpunarkraftur.
  4. Samstarfshæfni.
  5. Tjáning.
  6. Þjónustulund.
  7. Dómgreind og ákvarðanataka.
  8. Samningslipurð.
  9. Aðlögunarhæfni.

Og nú getum við spurt okkur sjálf hvort íslenskir skólar setji þessa þætti í fyrirrúm eða haldi fast í „gömlu, góðu gildin“. Við getum líka spurt hvort yfirvöld menntamála hafi einhverja sýn á framtíð og hlutverk skólakerfis okkar.

Hjálmar Árnason,
framkvæmdastjóri Keilis