Nemendur eiga ekki að þurfa að aðlaga sig að gamaldags skólastofum og úreltum kennsluháttum. Skólinn á að laga sig að þörfum og kröfum nútíma nemenda. Það reynum við að gera í Keili í nánu samstarfi skólastjórnenda, kennara og nemenda.
Við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki fullkomin og breytingar á þunglamalegu skólakerfi taka sinn tíma. En við vitum jafnframt að við getum gert miklu betur og við þurfum að gera betur. Það er mikilvægt vegna þess að ef skólastarfið og kennsluhættirnir staðna verður skólinn aldrei í stakk búinn til að undirbúa nemendur fyrir örar breytingar og þróun í atvinnulífinu.
Lærðu þegar og þar sem þér hentar
Við vitum að það eru ekkert allir sem grípa námsefni strax í hefðbundinni kennslu þar sem kennarinn útskýrir efnið í tíma. Nemendur fara oft heim án þess að hafa náð því sem var fjallað um í tímanum og það eru ekki allir sem geta fengið hjálp þar.
Í Keili bjóðum við upp á vendinám þar sem náminu snúið við. Nemandinn sækir fyrirlestrana heima hjá sér og vinnur heimavinnuna í skólanum. Þannig eru fyrirlestrar kennara vistaðir á netinu og geta nemendur horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Fyrir vikið breytast kennslustundir í skólanum, þar sem meiri áhersla fer í nemendaverkefni og hópavinnu. Þar breytist einnig hlutverk kennarans úr þeim sem miðlar efninu fyrir hópinn, yfir í aðilann sem leiðbeinir einstökum nemendum.
Heimilislegar skólastofur
Við erum ólík. A og B manneskjur, innhverf eða félagslega virk, þurfum næði eða þrífumst í umhverfi með öðrum. Það hentar ekki að setja okkur öll í sama boxið. Við erum hreyfanleg, virk og gagnvirk, og við viljum ekki að byggingar eða aðstæður skilgreini hvar, hvernig eða hvenær við lærum. Fólk lærir ekki lengur á þeim stöðum sem við höfum fyrirfram skilgreint sem námsaðstöðu. Við lærum þar sem okkur hentar og þegar okkur hentar. Við erum farin að læra allsstaðar annarsstaðar en við skrifborðið á skrifstofunni með bókunum og borðtölvuna. Við lærum við borðstofuborðið, í eldhúsinu, í rúminu, á gólfinu, á kaffihúsinu, með vinum okkar. Við lærum hvar og hvenær sem okkur hentar best.
Í Keili áttuðum við okkur á því að það var ekki nóg að breyta því hvernig námið fer fram, við þurftum líka að endurskilgreina í hvernig umhverfi það færi fram. Ef okkur líkar vel við að læra í hlýlegu, frjóu og fjölbreyttu umhverfi, afhverju ættu þá skólastofurnar að vera kerfisbundin og vélræn uppröðun á borðum og stólum sem beina allri athyglinni að kennaranum. Skólastofurnar okkar eru þannig að breystast úr því að kennarinn sé í aðalhlutverki og nemendurnir sitja eins og óvirkir hlustendur, yfir í lifandi umhverfi sem virkjar nemendur á þeirra forsendum.
Ekki læra fyrir próf
Veltið setningunni ég er að læra fyrir próf fyrir ykkur. Nám gengur allt of mikið út á það að við séum að læra til að ná prófum, frekar en að við lærum til þess að þekking verði til staðar til frambúðar. Lokapróf meta oftar en ekki það hvort að þú sem námsmaður sért góður að læra fyrir próf, en ekki endilega þá vitneskju, þekkingu eða færni sem þú hefur sankað að þér á námstímanum.
Hjá Keili reynum við að mæta hverjum nemanda á hans eigin forsendum. Þetta á líka við um hvernig við metum þekkingu hans. Ef það hentar þér að senda okkur myndband af þér að vigta lömb á dönsku í stað þess að svara krossaprófi, þá gerir þú það. Það skiptir okkur minna máli hvernig þú sýnir að þú hafir náð tökum á efninu. Það hentar ekki öllum að sitja skrifleg lokapróf og því erum við með fjölbreytt námsmat í Keili.