Nemendur eiga ekki að þurfa að aðlaga sig að gamaldags skólastofum og úreltum kennsluháttum. Skólinn á að laga sig að þörfum og kröfum nútíma nemenda. Það reynum við að gera í Keili í nánu samstarfi skólastjórnenda, kennara og nemanda.
Við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki fullkomin og breytingar á þunglamalegu skólakerfi taka sinn tíma. En við höfum gert okkur grein fyrir því að við getum gert miklu betur og við þurfum að gera betur. Það er mikilvægt vegna þess að ef skólastarfið og kennsluhættirnir staðna verður skólinn aldrei í stakk búinn til að undirbúa nemendur fyrir örar breytingar og þróun í atvinnulífinu.
Nýtt tækifæri til náms á Háskólabrú
Enn er hægt að sækja um nám í Háskólabrú á vorönn 2019. Skólasetning verður föstudaginn 11. janúar og er hægt að stunda námið bæði með og án vinnu.
Boðið er upp á aðfaranám að háskólanámi í fjarnámi til eins eða tveggja ára, sem hentar vel þeim sem vilja taka Háskólabrú með vinnu eða taka aðfaranámið á lengri tíma. Fjarnám getur hentað þeim sem að vilja nýta sér nýjustu tækni í kennslu, haga sínum námstíma eftir þörf í tíma og rúmi. Þannig geta nemendur hlustað á fyrirlestra, fylgst með hvernig stærðfræðidæmi eru reiknuð, lagt málefnum lið á spjallþráðum og spurt spurninga.
Háskólabrú Keilis er eftirsóttasta frumgreinanám á Íslandi og hafa nú yfir 1.700 einstaklingar lokið náminu. Af þeim hafa lang flestir haldið áfram í háskólanám bæði hérlendis og erlendis. Háskólabrú Keilis gildir til inngöngu í allar deildir Háskóla Íslands, sem og í flestar deildir háskóla bæði hérlendis og erlendis.