Fara í efni

Spurningin er hvernig við virkjum alla

Rick Howard er einn af kennurunum okkar við ÍAK bæði í styrktarþjálfara- og einkaþjálfaranámi, hann heldur staðlotur í áföngum um þessar mundir og því kjörið að nýta tækifærið og spyrja hann spjörunum úr.

Um þessar mundir vinnur Rick að doktorsrannsóknum við Rocky Mountain University of Health Professions. Þá er hann aðjúnkt við West Chester háskóla, Temple háskóla, Rowan háskóla og fylkisháskóla Delaware. Megin áhugasvið Howard er hreyfing barna og ungmenna og áhrif hennar á þjálfun ævilangt, en hann stofnaði m.a. félagið Youth Centered Sports and Fitness utan um starfsemi á því sviði. 

Opnað hefur fyrir umsóknir í ÍAK einkaþjálfaranám en umsóknarfrestur er til 30. apríl. 

Hver er reynsla þín í einka- og styrktarþjálfun?

Ég er búinn að stunda styrktarþjálfun stærstan hluta ævi minnar, um það bil 45 ár núna og hef starfað sem einkaþjálfari í meira en 35 ár, áður en þetta var kallað einkaþjálfun þá var þetta bara hvernig þú tengdist fólki í ræktinni en síðar varð þetta að eiginlegu starfi – ég er búinn að vera í þessu alveg síðan það var raunin. Eftir að hafa starfað við það í nokkur ár fór ég í íþróttakennaranám við Temple háskóla í Fíladelfíu og eftir það mastersnám í leiðtogafræðum og er nú að vinna að doktorsrannsóknum á sviði eflingu heilsu og vellíðanar og er áhersla mín þar er á ungmennastarf. Ég er að vinna að rannsóknum við það hvernig þau beygja sig og hvernig þau stökkva bæði fyrir og eftir kynþroska til þess að sjá hvort það verði einhver mælanleg breyting á eðli hreyfinganna.


Hvað eru þau gögn sem þú hefur þegar aflað í rannsóknum þínum að segja til um breytingu á hreyfingu barna?

Við gengum út frá því að breytingin yrði engin, en við teljum að eftir því sem íþróttamaðurinn nær meiri þroska þeim mun betri verði hreyfingar við beygjur sem stuðlar að betra stökki. Sem segir okkur að við þurfum að einbeita okkur frekar að grunnatriðum með íþróttamönnum og viðskiptavinum áður en við förum í flóknari hreyfingar sem fólk er svo hrifið af. Fólk tengir íþróttamennsku [e. athleticism] aðallega við íþróttamenn í fremstu röð en við ættum heldur að yfirfæra það á heildina svo allir hafi grunnverkfærin til þess að verða bestu „íþróttamenn“ sem þau geta verið – svo við skilgreinum íþróttamenn sem alla með líkama. Allir ættu að vera virkir, spurningin er aðallega hvernig við virkjum alla.

Margret Whitehead frá Bretlandi tók að nota hugtakið líkamlegt læsi [e. physical literacy] sem miðar að því að allir hafi færi á því að verða líkamlega virkir, hvenær sem er yfir æviskeiðið. Það er okkar starf sem einkaþjálfarar eða styrktarþjálfarar að veita þeim verkfærin til þess að gera akkúrat það. Hluti af því sem ég vil koma til leiðar er að veita öllum þessi verkfæri því það er ekki raunin í dag.


Hvað fælist þá í því að vera líkamlega ólæs?

Líkamlegt ólæsi felst helst í því að hreyfa sig ekki, gera ekkert. Kanadíska líkanið um líkamlegt læsi gengur út frá eiginlegum árangri í íþróttum – að hafa getuna, hæfnina og sjálfstraustið til þess að vera líkamlega virkur, helst í gegnum íþróttir sem börn. Sem er að vissu leiti frábær leið til þess að vinna það, vegna þess að börn elska íþróttir. Ef þú hins vegar einblínir alltaf bara á afraksturinn í íþróttum til marks um líkamlegt læsi, þá eru allir ólæsir því það tekur tíma að komast á þann stað. Þetta er ein af þeim spurningum sem valda okkur hvað mestu hugarangri því þetta er líka ferli.

Við erum gjörn á að tengja líkamlegt ólæsi við okkur sjálf. Ef þú ert bara að byrja að hreyfa þig, hefur gert lítið af því í gegnum tíðina, þá er það frábært – byrjaðu einhverstaðar, það er alltaf hægt að byggja ofan á það. Rannsóknir hafa sýnt að einstaklingar á sjötugsaldri geti enn aukið styrk ef það byrjar í æfingarprógrami. Svo það er aldrei of seint að byrja.

Ef þú hins vegar villt verða afreksíþróttamaður þá er ákveðinn tímapunktur þar sem það verður ólíklegt að það raungerist. En það fer líka eftir íþróttinni, ef þú lítur á fimleika eða dýfingar þá er raunin þar að ef þú byrjaðir ekki ungur að þjálfa þá er ólíklegt að þú verðir Ólympíuíþróttamaður en það er engin ástæða fyrir því að manneskja sem byrjar seinna geti ekki sigrað sinn aldurshóp í kapplaupi eða álíka.


Hvernig byrjaðirðu í einkaþjálfun?

Ég byrjaði á nokkuð óhefðbundinn máta, margir einkaþjálfarar byrja á því að starfa við annað og færast svo að faginu. Ég hóf háskólanámið mitt í stærðfræði, ég elskaði stærðfræði og vildi gera hana að ævistarfi mínu. Svo þegar ég var komin með einhverja reynslu á það uppgötvaði ég að ég elskaði hana ekki eins mikið og ég hélt, í það minnsta ekki nóg til að skuldbinda mig við hana. En ég hafði löngum haft gaman af hreyfingu, ég var í íþróttum í gagnfræðaskóla ásamt því að stunda lyftingar og það voru uppáhalds hlutirnir mínir sem ég gerði í háskóla. Svo ég hugsaði með sjálfum mér að það væri mögulega líklegra til árangurs að færa áherslu mína þangað. Á þeim tíma var þetta svo ungur iðnaður að eina námið sem var í boði var fyrir íþróttakennarann, svo ég gerði það. Ég færði mig á milli skóla og komst að því að þú þarft ekki að skorða þig við að vera íþróttakennari, það var nýtt fræðasvið sem hvelfdist um hreyfingu og mér leist virkilega vel á það og það breytti öllu fyrir mig. Manneskjan sem stýrði deildinni var ekki sú bjartsýnasta um framtíð fagsins, sagði að það yrði ekkert úr okkur og tekjurnar og ánægjan yrði takmarkaðar. Raunar reyndi hún að sannfæra okkur um að skipta um fag, en ég haggaðist ekki.


Hvers vegna ætti fólk að gerast einkaþjálfarar?

Algengasta ástæðan er að gera það vegna þess að þú villt hjálpa fólki, það er algengasta skýringin sem maður heyrir. Þú tekur áhugamál þitt og ástríðu og þú mótar feril úr þeim, sem er frábært. Maður fer ekki út í þjálfun bara til þess að geta hreyft sig sjálfur heldur til þess að geta miðlað þekkingu og hjálpað öðrum að skilja líkama sinn betur.

Þú þarft að leita þér að starfi sem veitir þér ánægju og það eru mörg tækifæri innan einkaþjálfunargeirans, þú getur farið út í hópaþjálfun, unnið með einstaklingum, sérhæft þig í vinnu með eldra fólki eða eins og ég í hreyfingu barna. Og jafnvel ef þú sérhæfir þig eins og ég gerði þá getur þú samt unnið með íþróttaliðum eða skólum eða æskulýðsstarfi svo það eru margir mismunandi möguleikar. Þú þarft ekki endilega að skorða þig við eina tegund viðskiptavina.


Er menntunin nauðsynleg, er ekki nóg að miðla bara af reynslunni?

Það eru góðar líkur á því að þeir einstaklingar sem ná sjálfir góðum árangri í ræktinni eða ákveðinni íþrótt hafi náð honum vegna náttúrulegrar hæfni. En megnið af fólki hefur ekki slíka færni að bera. Þess vegna er mikilvægt að læra vísindin að baki því sem þú ert að gera til þess að tryggja að æfingin virkaði ekki bara fyrir þig af tilviljun, heldur viljum við tryggja að það sé vísindalegur grundvöllur þar að baki svo þú sért ekki að valda öðrum skaða. Við þurfum að vera viss um hvað við ættum að vera að gera fyrir einstaklinginn og hvers vegna, svo nema þú skiljir líffræðina og virkni líkamans vel þá getur reynst erfitt að setja upp prógram sem gengur upp. Maður hefur unnið með einstaklingum sem finna bara æfingarprógröm á netinu sem virka fyrir þá sjálfa og láta svo viðskiptavin hafa þau. En það skilaði ekki sama árangri og það er það sem viðskiptavinurinn vill sjá – árangur. Það sem virkar fyrir þig virkar ekki endilega fyrir aðra. Þú þarft að geta yfirfært upplýsingarnar á stærra mengi.


Þar sem þú sérhæfir þig í börnum og þjálfun þeirra – ef ég vil hvetja barnið mitt til þess að hreyfa sig og fara út í íþróttir, hvernig væri best fyrir mig að nálgast það og hvað ber að forðast?

Þetta er uppáhalds spurningin mín! Ég tók þátt í að skrifa stöðuyfirlýsingu um langtíma íþróttaþroska [e. long-term athletic development]. Kanadamenn voru þeir fyrstir til þess að leggja fram líkan á því sviði, en út frá vísindalegu sjónarhorni voru nokkrir hlutir þar sem við sammældumst ekki svo við sniðum okkar eigið fyrir Bandaríkin. Úr því urðu tíu stoðir hreyfingar sem börn ættu að framkvæma á æviskeiðinu. Til þess að öðlast fjölbreytta færni verður börn að stunda fjölbreytta æfingu, frekar en að skorða sig við staka íþrótt. Það að foreldrarnir hafi náð árangri í ákveðinni íþrótt er engin trygging á því að barnið geri það, líkamsbygging og fleiri þættir gætu verið öðruvísi – það eru ekki allir eins. Vissar íþróttir ganga kannski upp meðan þú ert yngri en svo vaxa börn úr grasi og þær gera það ekki lengur, kannski verður barnið of hátt til að vera fimleikamaður eða of stutt til þess að spila körfubolta. Þeim mun fleiri hluti sem börn prófa, þeim mun meiri líkur eru á að þau finni eitthvað sem vekur áhuga þeirra og þau eru góð í. Rannsóknir hafa sýnt að þeim mun fleiri íþróttir sem börn prófa þeim mun betri íþróttamenn verða þau vegna allrar þeirrar mismunandi færni sem þau hafa aflað sér. Það veitir þeim skyn á vellinum [e. field sense], sem liggur fyrir utan líkamlega hlutann af íþróttum, tæknilega hlutann að geta hreyft líkamann vel, það er kænskan að geta skilið stöðu sína innan leiksins. Þeim mun fleiri íþróttir sem þú spilar þeim mun þróaðri verður þetta skyn þitt. Aðferðirnar eða leikkerfin eru oft keimlík milli íþrótta svo þú lærir mismunandi nálganir og sjónarhorn á það sem er í grunninn sama kerfið. Þá tengist þetta einnig inn á félagsþroska, það er betra að læra að vera hluti af mörgum mismunandi hópum sem barn en að skorða þig við einn ákveðinn. Oft á tíðum mynda foreldrarnir sér hóp innan ákveðinnar íþróttar og barnið er einhvern vegin neitt til að halda áfram svo þeir þurfi ekki að færa sig inn í nýjan hóp – jafnvel þó barnið hafi misst áhugann á íþróttinni.


Hver gætu áhrifin af því að halda barni við íþrótt sem það hefur misst áhugann á verið?

Markmið okkar er að stuðla að því að fólk sé virkt í gegnum allt æviskeiðið en við höfum séð að barnið mun finna leið til þess að komast hjá því að iðka íþrótt sem það kann ekki við á einn eða annan máta. Það gerist kannski ekki strax, en það mun gerast. Þá getur það þróað með sér neikvætt viðmót gagnvart hreyfingu almennt, forðast hana því og er líklegri til þess að þróa með sér lífstílssjúkdóma.


Er eitthvað sem þú villt bæta við í lokin?

Eitt af því sem ég hef tekið eftir á meðan ég hef verið hér í heimsókn frá Bandaríkjunum er að strength and conditioning er alþjóðlegt tungumál. Allir sem stunda það eða vinna að því  hvar svo sem þeir eru tala þetta sama tungumál. Svo þekking sem þú öðlast hér má yfirfæra hvert sem er í heiminum. Sem mér finnst virkilega flott. Maður sér fólk stunda sömu æfingar, í sömu röð á sama hátt í líkamsræktarstöðum hvarvetna um heiminn. Vísindin að baki eru alltaf þau sömu og geta fluttst hvert sem er. Í sumum störfum eða námi öðlastu þekkingu sem er staðbundin, það er ekki hægt að flytja hana með sér, en það er alls ekki tilfellið í þjálfarastarfi og -menntun.

 

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í ÍAK einkaþjálfaranám fyrir hausið 2020, umsóknarfrestur rennur út 30. apríl næstkomandi.

Nánari upplýsingar er að finna hér

 

Nokkrar greinar eftir Rick:

Who Gets to Be Called an Athlete? // Men‘s Health

How I Used Strongman Training to Recharge My Stale Workouts // Men‘s Health

Why Youth Strength and Conditioning Matters // NSCA

Using Your Creativity and Knowledge Base to Implement LTAD // NSCA

Incorporating Unstructured Free Play into Organized Sports // Strength and Conditioning Journal