Fara í efni

Iðandi námsmannasamfélag

Keilir á Ásbrú
Keilir á Ásbrú

Eftirfarandi grein um Keili birtist í Reykjanesblaðinu, 22. ágúst síðastliðinn.

Keilir - Iðandi námsmannasamfélag á Suðurnesjum

Í haust hefur Keilir sjötta starfsár skólans en á þessum tíma hefur samfélagið á Ásbrú vaxið frá því að vera draugabær eftir brotthvarf hersins í iðandi samfélag fræða, vísinda og atvinnulífs. Á þessum tíma hafa yfir 1.500 manns útskrifast frá mismunandi deildum Keilis og því ljóst að skólinn er orðinn mikilvægur hluti samfélagsins á Reykjanesi og sér í lagi þeirrar uppbyggingar sem hefur átt sér stað á Ásbrú. Í haust hefja um 350 nemendur nám í mismunandi skólum Keilis og er það svipaður fjöldi og undanfarin ár. Í heildina stunda að jafnaði hátt í 600 nemendur nám við Keili, bæði í staðnámi á Ásbrú og Akureyri og í fjarnámi.

Skólinn skiptist í fjórar deildir Háskólabrú, Íþróttaakademíu, Flugakademíu og tæknifræðinám. Háskólabrúin er bæði kennd sem hefðbundið staðnám og í fjarnámi. Boðið er upp á námið í samstarfi við Háskóla Íslands og geta útskrifaðir nemendur hafið nám við hvaða háskóla sem er á Íslandi en um 85% þeirra hafa haldið áfram í háskólanám. Háskólabrú Keilis hefur þannig á skömmum tíma veitt fjölmörgum aðilum nýtt tækifæri til náms. 

Líkt og undanfarin ár býður Íþróttaakademía Keilis upp á hið eftirsótta ÍAK einkaþjálfaranám, en sem nýlunda er einnig boðið upp á nám í styrktarþjálfun. Árlega sækjast yfir hundrað einstaklingar eftir því að komast í námið en að jafnaði er einungis helmingur þeirra samþykktir í námið. Í haust býður Íþróttaakademían einnig upp á nýtt leiðsögunám í ævintýraferðamennsku (Adventure Sport Certificate) á vegum Thompson Rivers háskólans í Kanada. Um er að ræða eins árs nám með mikla áherslu á útivist og verklega kennslu í íslenskri náttúru. Mikill áhugi er fyrir náminu en einungis 18 nemendur komast að í hvert skipti.

Flugakademía Keilis hefur á skömmum tíma skapað sér sess bæði innanlands og erlendis með hágæða kennsluvélum, samkeppnishæfu verði og fagmannlegri kennslu. Boðið er upp á bæði einka- og atvinnuflugmannsnám, auk náms í flugumferðarstjórn og flugþjónustu. Í haust hefst einnig flugvirkjanám í samvinnu við flugvirkjaskólann AST í Skotlandi en þar er rekin elsta starfandi flugvirkjanámsbraut í Evrópu. Flugvirkjanám Keilis hefur farið afar vel af stað, en um 120 einstaklingar sóttu um þau 28 pláss sem voru í boði. Fjölmargir erlendir nemendur sækja flugnám hjá Flugakademíu Keilis og fer sá hópur vaxandi með ári hverju.

Keilir býður einnig upp á háskólanám í tæknifræði í samstarfi við Háskóla Íslands, en náminu er ætlað að mæta þeim skorti sem er á háskólamenntuðu starfsfólki í tækni- og hugverkagreinum á Íslandi. Um 30 nemendur hófu nám í tæknifræði í byrjun ágúst og bætast við sambærilegan hóp sem stunda nám á öðru og þriðja ári við skólann. Tæknifræðinámið hjá Keili er gott dæmi um samstarf atvinnulífs, rannsókna, frumkvöðla og menntunar á Ásbrú, enda hafa nemendur unnið fjölmörg hagnýt verkefni á undanförnum árum og hafa nokkur sprotafyrirtæki orðið til í kjölfarið, þ.m.t. GeoSilica Iceland sem hefur vakið verðskuldaða athygli undanfarið.