Fara í efni

Jafnrétti er ákvörðun

Í gær, fimmtudaginn 10.október, hlaut Keilir viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar árið 2024 sem var afhent á viðurkenningarathöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands. 

Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni FKA (félags kvenna í atvinnulífinu) sem unnið er í samstarfi við ýmis fyrirtæki og stofnanir og hefur það markmið að auka jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi.  Þetta árið voru 130 viðurkenningar veittar og hefur aukist talsvert frá árinu áður. 

Dr. Ásta Dís Óladóttir formaður Jafnvægisvogarinnar opnaði hátíðina og fagnaði árangrinum í jafnréttismálum en ávarpaði að enn væri langt í land. Katrín Jakobsdóttir tók í sama streng en hún flutti áhugavert og hvetjandi ávarp þar sem hún fór yfir stöðuna í jafnréttismálum og lauk ávarpinu með yfirskrift Jafnvægisvogarinnar sem er ,,Jafnrétti er ákvörðun".

Keilir tekur stoltur á móti viðurkenningunni og fagnar þessu mikilvæga verkefni og vitundarvakningu er varðar jafnrétti.  Jafnrétti er svo sannarlega ákvörðun og betur má ef duga skal.