Keilir var valinn Menntasproti ársins árið 2017 af aðiladarfélögum Samtaka atvinnulífsins. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin á menntadegi atvinnulífsins sem haldinn var í fjórða sinn þann 2. febrúar á Reykjavík Nordica.
Myndband: Menntasproti ársins 2017 - Keilir
Í rökstuðningi dómnefndar segir: Keilir var stofnaður árið 2007 og starfar á Ásbrú í Reykjanesbæ á gamla varnarsvæði Bandaríska hersins. Keilir er alhliða menntafyrirtæki í eigu háskóla, fyrirtækja og almannasamtaka. Á aðeins tíu árum hefur tekist að breyta yfirgefinni herstöð í þekkingarþorp.
Keilir hefur lyft grettistaki, innleitt nýjar hugmyndir og kennsluhætti og lagt sig fram um að hlusta á þarfir atvinnulífsins og mennta starfsfólk sem eftirspurn er eftir þegar námi lýkur. Hlutfall hlutfall háskólamenntaðra íbúa í Reykjanesbæ sem eru eldri en 25 ára hefur meira en tvöfaldast frá 2007 og 85% þeirra sem ljúka námi við Háskólabrú Keilis halda áfram í háskóla en margir þeirra hafa flosnað upp úr hefðbundnu háskólanámi.
Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis tók við verðlaununum ásamt Árna Sigfússyni, stjórnarformanni Keilis. Í þakkarávarpi sínu sagðist hann taka í aumýkt við viðurkenningunni. Við höfum reynt að fara nýjar leiðir við að bjóða fólki menntaúrræði og þessi hvatning frá Samtökum atvinnulífsins hvetur okkur til frekari dáða sagði Hjálmar enn fremur.
Menntadagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fjármálafyrirtækja, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins. Hjá aðildarfyrirtækjum samtakanna starfar um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.