Fara í efni

Keilir hlýtur styrk úr Vaxtarsamningi

Keilir hlaut þrjá styrki úr Vaxtarsamningi Suðurnesja sem úthlutað var 5. desember síðastliðinn. Þetta var fjórða úthlutun styrkja úr samningnum en samtals hefur verið úthlutað 100 milljónum króna. Samningur um Vaxtarsamning var gerður milli sveitarfélaga á Suðurnesjum og ríkisins til fjögurra ára og er sá samningur nú að renna sitt skeið á enda. Fram kom hjá Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnarðarráðherra að áframhald verði á styrkjum sem þessum og unnið sé að útfærslu þeirra.

Styrkirnir sem Keilir hlaut eru:

Markaðssetning Orkurannsókna ehf
Orkurannsóknir ehf er sjálfstætt starfandi eining innan Keilis. Stefnt er að markaðssetningu þjónustu á sviði efnagreininga, rannsókna á endurnýjanlegri orku og sjálfstýringartækni (mekatronic). Þjónustan sem boðið verður upp á er sérhæfð en jafnframt mjög brýn og gagnast mörgum fyrirtækjum í nærumhverfinu ásamt því að skapa fjölbreytt tækifæri til nýsköpunar á Reykjanesi. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500 þúsund.

Markaðs- og kynningarstarf á nýrri námsbraut í ævintýraleiðsögn
Markmiðið með verkefninu er að byggja upp námsbraut Keilis í ævintýraleiðsögn á alþjóðalegum grunni, m.a. með inntöku erlendra nemenda og útvíkkun námskeiða fyrir erlenda nemendur.  Mikill áhugi er á Íslandi bæði sem áfangastaður í ævintýraferðamennsku, en ekki síður fyrir þá aðila sem vilja mennta sig í leiðsögn í ævintýraferðamennsku við krefjandi aðstæður. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 500 þúsund.

Samstarfsverkefni um erlent markaðsstarf
Verkefnið snýr að nýrri nálgun í markaðsvinnu Flugakademíu Keilis í samvinnu við AST í Skotlandi. Flugakademían hefur stofnað til samstarfsbandalags um markaðssetningu erlendis á vörum og þjónustu sinni. Að auki hefur AST og Flugakademían gert með sér gagnvirka samstarfssamninga þar sem unnið verður að því að markaðssetja og fjölga erlendum nemendum í flugvirkjun hingað til lands. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1 milljón.