Nú þegar heimsfaraldur hefur gert fjarkennslu og breytta kennsluhætti nauðsynlega hér á landi horfa margir til þeirra menntastofnana sem þegar höfðu tekið stór skref í þá átt. Keilir, miðstöð víðsinda, fræða og atvinnulífs er svo sannarlega í þeim hópi.
Keilir sem hefur verið leiðandi á sviði vendináms á Íslandi stóð mjög vel að vígi þegar einsýnt var að færa þyrfti kennslu yfir í fjarnám. Skólinn hefur um árabil lagt mikla áherslu á að mæta framtíðaráskorunum á sviði menntunar og hefur t.a.m. innleitt vendinám í alla sína kennslu þar sem því hefur verið við komið.
Samstarf við atvinnulífið, áhersla á að virkja nemendur í allri sinni vegferð í námi, tæknilegur stuðningur, vilji til þess að deila reynslu af aðferðum, fróðleiksfýsn starfsfólks og óhefðbundin blanda námsbrauta hefur ýtt undir samstarf og skoðanaskipti ólíkra aðila. Allt byggist þó árangurinn á hugrekki til þess að stíga út fyrir þægindarammann og feta ótroðnar slóðir.
Þróast í takt við þarfir
Keilir var stofnaður til þess að mæta þörfum um aukið menntunarstig á Suðurnesjum en hefur í auknu mæli orðið valkostur nemenda allstaðar af á landinu. Keilir hefur verið uppspretta nýsköpunar á sviði menntamála og þróast í takt við þarfir á hverjum tíma. Fjölbreytt námsframboð hefur litið dagsins ljós og árangurinn verið mikill.
Á fjórða þúsund nemenda hafa útskrifast frá Keili og hefur fjöldi þeirra sem stunda nám og námskeið á vegum skólans aldrei verið meiri. Nú þegar blasa við áskoranir í samfélaginu er mikilvægt að skólinn hafi bolmagn til þess að mæta þeim með auknu námsframboði og starfsemi sem styður við þarfir nemenda og samfélagsins. Menntaskólabraut í tölvuleikjagerð var einmitt svar við ákalli nemenda og hefur hún gengið mjög vel. Stefna Menntaskólans á Ásbrú er því í takt við leiðarljós Keilis. Fjórða iðnbyltingin er við útidyrnar og aðstæður nú hafa fært okkur nær stafrænum heimi. Nemendur kalla áfram eftir nýjum námsgreinum og Keilir ætlar sér að svara kallinu.
Sjálfbær skóli til framtíðar
Keilir er einkaskóli sem þó er að langstærstum hluta í eigu opinberra aðila. Skólinn hefur því svigrúm til þess að bregðast hraðar við og veita sérhæfðari og markvissari þjónustu.
Háskólabrú Keilis er aðfararnám inn í deildir Háskóla Íslands og þjónar því sem stökkpallur fyrir þá sem ekki kláruðu menntaskóla en vilja efla færni sína og vera vel undirbúnir undir háskólanámið. Ásókn í námið hefur aukist ár frá ári og má þykja ansi líklegt að ásóknin verði enn meiri í haust.
Fjárhagsleg staða skólans setur þó skorður og að öllu óbreyttu mun skólinn þurfa að setja verulegar fjöldatakmarkanir á inntöku. Frá því að erfið rekstrarstaða skólans varð ljós hefur markvisst verið unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu skólans með það að markmiði að gera rekstur hans sjálfbæran og auka um leið getu starfseminnar til þess að uppfylla þarfir samfélagsins á næstu árum.
Skýrsla um stöðu skólans hefur verið send menntamálayfirvöldum og er viðbragða að vænta. Einnig var sala á fasteignafélagi skólans undirbúin til þess að mæta uppsöfnuðu rekstrartapi og gera skólanum kleift að þjóna hlutverki sínu sem miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs á Ásbrú. Vel hefur verið tekið í þær tillögur af helstu hagsmunaaðilum og brýnt að sú vinna klárist sem allra fyrst.
Stuðningurinn er grundvöllur árangurs
Frá því ég tók við sem framkvæmdastjóri Keilis hafa megin markmið mín snúist um bættan rekstur skólans og sjálfbærni hans til framtíðar. Það er mín von að senn ljúki þeirri vegferð og tímabært sé að hafjast handa við nýja stefnumótun Keilis í samstarfi við starfsfólk og hagsmunaaðila. Sú vinna mun skila enn öflugri miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs.
Grunnur hefur verið lagður að nýsköpunarmiðstöð innan Keilis en um er að ræða samstarfsverkefni stofnana þar sem samlegðaráhrif nýtast á mörgum sviðum. Endurvekja þarf þróunar og vísindastarf á vegum Keilis og efla enn frekar erlent samstarf sem opnar fleiri leiðir nemenda að námi og tækifærum víða um heim. Keilir er veigamikill þáttur í samfélaginu og stuðningur við starfsemi skólans grunndvöllur fyrir tilveru hans.
Segja má að mikilvægi Keilis, í ljósi aðstæðna, hafi aldrei verið meiri. Aukið atvinnuleysi og samfélagslegar breytingar kalla á ný úrræði til mennta og framfara. Keilir er eign samfélagsins og þjónn þess. Þeir fjölmörgu nemendur sem hugsa til Keilis með hlýhug bera vott um það góða starf sem skólinn sinnir. Það er ekki aðeins markmið Keilis að mennta nemendur heldur viljum við efla trú þeirra á eigin getu, ekki bara í námi heldur lífinu sjálfu. Því trúin flytur fjöll og okkar fjall er Keilir.
Jóhann Friðrik Friðriksson,
framkvæmdastjóri Keilis