Keilir hefur verið leiðandi aðili í innleiðingu vendináms (flipped learning) við kennslu. Með því er átt við að hefðbundinni kennslu er snúið við. Fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu og geta nemendur horft á þær eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Nemendur vinna aftur á móti heimavinnuna í skólanum, oft í verkefnum, undir leiðsögn kennara. Kennslustundir í skólanum verða fyrir vikið frábrugðnar hefðbundinni kennslu. Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt.
Erlend samstarfsverkefni í vendinámi
Nýverið hlaut Keilir verkefnastyrk úr Nordplus - Menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar til að leiða eins árs þróunarverkefni þar sem tekin eru saman fyrirmyndarverkefni á Norðurlöndunum og Eystrarsaltsríkjunum sem tengjast vendinámi. Ásamt Keili eru University College Syddanmark í Danmörku, Háskólinn í Tallinn í Eistlandi og Háskólinn í Turku aðilar að verkefninu. Að verkefninu koma helstu sérfræðingar landanna í vendinámi en sem dæmi má nefna að samstarfsaðilar halda meðal annars úti upplýsingasíðunum www.flippedlearning.dk og www.flippedlearning.fi.
Keilir hlaut einnig ferðastyrk á vegum Erasmus+ áætlunarinnar til að heimsækja VUCsyd fullorðinsfræðslumiðstöðina í Haderslev á Jótlandi, en skólinn hefur á síðustu árum fengið fjölda viðurkenninga fyrir nýstárlega nálgun í hönnun og nýtingu skólahúsnæðis. Ferðin verður farin haustið 2016 og er tilgangur að skoða sérstaklega hvernig tengja má saman kennslurými og kennsluaðferðir.
Þá tekur skólinn þátt í nýju Erasmus+ samstarfsverkefni um nýstárlegar kennsluaðferðir í skólastarfi. Meðal samstarfsaðila eru háskólar og starfsmenntastofnanir frá Ítalíu, Portúgal, Danmörku, Spáni og Grikklandi. Hlutverk Keilis verður að innleiða þekkingu og reynslu og innleiðingu vendináms.
FLIP - Flipped Learning in Praxis
Haustið 2014 hlaut Keilir, ásamt samstarfsaðilum á Íslandi og í Evrópu, verkefnastyrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins til þróunar á handbókum um innleiðingu vendináms í skólum þar sem upplýsingatækni er notuð til að auðga námsumhverfi nemenda. Verkefnið er til tveggja ára og nefnist ?FLIP - Flipped Learning in Praxis.
Verkefninu er ætlað að gera grein fyrir því innleiðingarferli sem þarf til í skólum til að stuðla að árangursríkri notkun upplýsingatækni, einstaklingsmiðuðu námsumhverfi, og verkefnamiðuðu námi. Meðal afurða verkefnisins eru handbækur fyrir kennara sem vilja innleiða vendinám, ráðstefnur og vinnubúðir fyrir kennara í samstarfslöndunum, samantekt á fyrirmyndarverkefnum og bestu starfsvenjum í vendinámi.
Sem liður í verkefninu stóð Keilir, ásamt íslenskum og evrópskum samstarfsaðilum, fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um vendinám í skólastarfi vorið 2015 þar sem hátt í 400 kennarar og skólastjórnendur fengu innsýn í hvernig hægt er að nýta vendinám og tækninýjungar við kennslu og þróun nýrra kennsluhátta.
Fjöldi aðila kynna sér vendinám hjá Keili
Keilir innleiddi vendinám á Háskólabrú skólans og haustið 2011 Síðan þá hafa hátt í tvö þúsund kennarar og skólastjórnendur heimsótt skólann til að kynna sér þessa kennsluaðferð, auk þess sem skólinn hefur staðið fyrir fjölmennum ráðstefnum og vinnubúðum.
Frá upphafi hefur Keilir verið í nánu samstarfi við forsprakka vendináms aðferðafræðinnar, Bandaríkjamennina Jon Bergmann og Aaron Sams. Þeir hafa meðal annars sótt vinnubúðir og ráðstefnur fyrir íslenska kennara og skólastjórnendur sem Keilir hefur staðið fyrir, auk þess sem þeir hafa verið sérstakir ráðgjafar skólans. Fyrir tilstilli þeirra hafa erlendir skólar frá Suður-Kóreu, Ástralíu og Norðurlöndunum heimsótt Keili gagngert til að kynna sér vendinám.
Nánari upplýsingar um vendinám á heimasíðu Keilis og á www.flippedlearning.eu.