Í dag, 20. október er alþjóðlegi tölfræðidagurinn sem tölfræðideild efnahagssviðs Sameinuðu þjóðanna stendur fyrir og er haldinn hátíðlegur á fimm ára fresti. Meginþema dagsins í ár er að tengja saman þjóðir heimsins með traustverðum gögnum þar sem upplýsingaóreiða hvort sem er um hnattrænar veðurfarsbreytingar, COVID-19 heimsfaraldurinn eða fleiri þætti getur komið í veg fyrir að allar þjóðir heimsins vinni sameiginlega að brýnum verkefnum sem varða hag og heilsu allra sem byggja þessa jörð.
Hér má finna ávarp framkvæmdastjóra Sameinuðu Þjóðanna um daginn og hér má finna myndband unnið af Hagstofu Íslands í tilefni dagsins þar sem tekin er saman tölfræði um kórónuveirufaraldurinn og efnahagsáhrif hans.
Þá standa Sameinuðu þjóðirnar fyrir stafrænu hlaupi umhverfis hnöttinn, sem gert er til þess að sýna fram á hversu langt við komumst þegar við vinnum saman. Þeir sem nota Strava appið til þess að skrá hlaupin sín geta gengið í sameiginlegan hóp hér en aðrir áhugasamir geta tekið þátt með því að deila árangri sínum á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #StatsDay2020.
Keilir lætur sitt ekki eftir sitja við fögnuð á tölfræðinni en mikilvægur þáttur í að draga úr upplýsingaóreiðu eru gagnsæi og greiður aðgangur að fjölbreyttum gögnum. Því höfum við birt alla gildandi tölfræði um nemendur Keilis, eftir skólum, deildum, kyni, aldri og búsetu. Samanteknar upplýsingar fyrir allar deildir Keilis má finna hér en undir þessum hlekk má einnig finna gögnin brotin enn frekar niður eftir hverjum skóla fyrir sig.