Fara í efni

Keilir með Framúrskarandi kennara 2014

Frá verðlaunaafhendingunni
Frá verðlaunaafhendingunni

Fimmtudaginn 3. júlí stóð Menntavísindasvið Háskóla Íslands fyrir verðlaunafhendingu þar sem fimm grunn- og framhaldsskólakennarar voru verðlaunaðir fyrir framúrskarandi störf.

Á fimmta hundruð kennara voru tilnefndir og er skemmst frá því að segja að Hrafnhildur Jóhannesdóttir stærðfræðikennari á Háskólabrú Keilis var ein af þeim sem hlutu þessa viðurkenningu. Hér að neðan má lesa umsögn nemanda sem fylgdi viðurkenningunni hennar: 

?Þrítug að aldri ákvað ég að stíga inn í óttann og reyna að láta drauminn rætast um að komast í háskóla. Ég ákvað því að skella mér í Háskólabrú Keilis. Fagið sem ég kveið allra mest fyrir var stærðfræðin. Í grunnskóla hafði ég náð hæst fjórum í einkunn og var því algerlega búin að ákveða að ég myndi aldrei geta lært stærðfræði. Hrafnhildur opnaði augu mín og hvatning hennar og kærleiksrík framkoma gerði það að verkum að ég hætti að vera hrædd við þetta fag. Kennsluhættir hennar eru algerlega einstakir þar sem mér fannst ég hreinlega vera að hlusta á spennusögu. Ég útskrifaðist síðan með 8,0 í meðaleinkunn. Henni tókst að fylla nemendur sína sjálfstrausti og gera stærðfræðina skemmtilega og auðskiljanlega.?
 

Verðlaunin eru afrakstur kynningarátakisins Hafðu áhrif sem Háskóli Íslands stóð fyrir nú í maí mánuði. Á heimasíðu átaksins sögðu þjóðþekktir Íslendingar frá þeim kennara sem mest áhrif hafði haft á líf viðkomandi í stuttum myndböndum. Í átakinu gafst almenningi jafnframt kostur á að senda inn tilnefningu um þann kennara sem mest áhrif hafði haft á hvern og einn. Á fimmta hundruð kennara voru tilnefndir af u.þ.b tvö þúsund manns.  Valnefnd fór svo yfir tilnefningar og umsagnir og valdi í kjölfarið fimm kennara sem viðurkenninguna hlutu. 

Starfsfólk og kennarar Keilis óskar Hrafnhildi innilega til hamingju.