Fara í efni

Keilir opnar starfsstöð fyrir flugnám á Sauðárkróki

Flugakademía Keilis hefur opnað starfsstöð fyrir nemendur í verklegu atvinnuflugnámi á Alexandersflugvelli í Skagafirði.

Bæði nemendur og kennarar sem hafa undanfarið verið staðsettir á Sauðárkróki eru yfir sig ánægðir með bæði innviði og aðstöðu til flugnáms í Skagafirði, en þar eru kjöraðstæður til verklegrar flugkennslu. Reiknað er með að um tuttugu nemendur og 2-3 kennsluvélar verði að jafnaði á flugvellinum allt árið um kring.

Mikill áhugi er á atvinnuflugnámi hérlendis, bæði meðal Íslendinga og erlendra nemenda, og hefur Flugakademía Keilis vaxið hratt á undanförnum árum. Þannig tvöfaldaðist fjöldi kennsluvéla við skólann á árunum 2014 - 2018, úr sjö í fjórtán flugvélar, og fjölgaði atvinnuflugnemum í á þriðja hundrað. Eftir kaup Keilis á Flugskóla Íslands fyrr á árinu er fjöldi kennsluvéla orðinn yfir tuttugu og skólinn orðinn einn stærsti flugskóli á Norðurlöndunum. 
 
Ísland er einstakt á heimsvísu til flugnáms
 
Ólíkt flestum öðrum löndum þar sem boðið er upp á flugnám, eru litlar sem engar takmarkanir á Íslandi þegar kemur að flugi kennsluvéla. Þannig geta nemendur til að mynda tekið á loft á alþjóðaflugvellinum í Keflavík, æft snertilendingar í Vestmannaeyjum og farið í aðflug á Ísafjarðarflugvelli. Krefjandi aðstæður, fjölbreytt landslag og fjöldi mismunandi flugvalla á landinu, gera þannig Ísland einstakt á heimsvísu til kennslu og verklegrar þjálfunar atvinnuflugnema.
 
Víða um land má finna vannýtta flugvelli sem henta vel til flugnáms, þar sem innviðir og umgjörð bjóða upp á kjöraðstæður til flugnáms. Með auknum fjölda kennsluvéla hefur Keilir fengið tækifæri á að auka við starfsstöðvar skólans. Megin starfsemi Flugakademíunnar, bæði bóklegt og verklegt nám, mun eftir sem áður fara fram á Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli. En með aukinni áherslu á nýtingu flugvalla á landsbyggðinni vill skólinn tryggja enn betri aðgengi nemenda að verklegri þjálfun.
 
Samstarf við FNV
 
Flugakademía Keilis og Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra undirrituðu samstarfssamning varðandi þjónustu við flugnema á Alexandersflugvelli við Sauðárkrók, fimmtudaginn 7. mars síðastliðinn. Með samstarfinu fá nemendur aðgang að fullkominni námsaðstöðu skólans og hýsingu á heimavist FNV á meðan þeir stunda nám sitt fyrir norðan. Þá munu skólarnir skoða enn nánara samstarf í framtíðinni meðal annars með möguleika á flugtengdu námi til stúdentsprófs og fjarnámsaðstöðu fyrir nemendur sem leggja stund á bóklegar greinar atvinnuflugnámsins í fjarnámi.