Fara í efni

Kennari hjá Keili hlýtur nýsköpunarverðlaun

Frá afhendingunni. Hilmar er annar frá vinstri.
Frá afhendingunni. Hilmar er annar frá vinstri.
Hilmar Þór Birgisson, kennari við tæknifræðinám Keilis, hlaut önnur verðlaun í Hagnýtingarverðlaunum HÍ.

Verkefni Hilmars Þórs Birgissonar, kennara við tæknifræðinám Keilis, hlaut önnur verðlaun í Hagnýtingarverðlaunum Háskóla Íslands á dögunum. Þetta er í 14. sinn sem Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands eru afhent en með þeim vill háskólinn stuðla að nýsköpun og frumkvöðlastarfi innan skólans og verðlauna þær tillögur sem skara fram úr. Ásamt kennslu hjá Keili er Hilmar einnig meistaranemi í rafmagns- og tölvuverkfræði hjá Háskóla Íslands.

Samkeppnin var hörð og eftir töluverða yfirlegu ákvað dómnefnd að veita verkefninu Skramba fyrstu verðlaun sem nema einni milljón króna, en um er að ræða leiðréttingarforrit sem greinir texta málfræðilega og finnur af samhengi hans rétta stafsetningu orða. 

Önnur verðlaun hlaut verkefnið „Tóngreinir til tónbilaæfinga á smátækjum”. Auk Hilmars stóðu Helgi Þorbergsson, dósent í rafmagns- og tölvuverkfræði, Magnús Örn Úlfarsson, lektor í rafmagns- og tölvuverkfræði, og Sveinn Ólafsson, vísindamaður við Raunvísindastofnun, að verkefninu. Um er að ræða kerfi sem þegar hefur verið hannað fyrir farsíma og spjaldtölvur og er bæði ætlað til menntunar og tómstunda. Það greinir tóna í rauntíma og umbreytir þeim í frambærilega nótnaskrift. Kerfið getur því aðstoðað byrjendur við að læra og greina tónbil og lesa nótnaskrift. Áætlað er að vara byggð á þessu kerfi komi á markað sumarið 2013. Í umsögn dómnefndar segir að hugmyndin sé frumleg og dæmi um hagnýtingu þar sem saman fari vel útfærð viðskiptahugmynd og rannsóknir innan háskólans.

Við óskum Hilmari og samstarfsaðilum hans til hamingju með viðurkenninguna. Nánari upplýsingar um keppnina er hægt að nálgast á heimasíðu Háskóla Íslands.