Elfa Dögg Hrafnsdóttir Scheving er 29 ára þriggja barna móðir sem býr í Stykkishólmi. Elfa Dögg lauk námi á viðskipta- og hagfræðideild Háskólabrúar Keilis þann 9.júní þar sem hún fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsárangur. Hún hafði gert tilraun til að stunda nám oft áður en aldrei náð að halda sig við efnið. Tók nokkrar rangar beygjur í lífinu að hennar mati og trúði í raun að nám væri ekki fyrir hana. Áður en hún hóf nám hjá Keili höfðu liðið fjögur ár frá því hún hafði síðast stundað nám, var hálfnuð með sjúkraliðanám en þurfti að hætta vinnu vegna mikilla veikinda á meðgöngu. Hún og maður hennar eignuðust síðan þrjú börn á tveimur og hálfu ári og af þeim ástæðum sem og að lenda í persónulegu áfalli þurfti hún að hætta í námi.
Áfall sem dreif hana áfram
Drifkrafturinn fyrir ákvörðun Elfu Daggar að hefja og ljúka námi á Háskólabrú var í raun áfall sem fjölskylda hennar varð fyrir 2020 þegar dóttir hennar fæðist andvana. Um leið og hún fékk hana í fangið lofaði hún dóttur sinni að hún myndi ávallt varðveita minningu hennar. Fallegasta hugsunin sem hún gat fundið innra með sér var að sína dóttur sinni virðingu með því að virða lífið og búa til það líf sem hún hefði óskað henni. „Ég ákvað að vera móðir sem hún gæti verið stolt af og finna bestu útgáfuna af sjálfri mér með því að grípa öll þau tækifæri sem lífið hefur upp á að bjóða," segir Elfa Dögg. Þegar yngsti drengurinn þeirra hóf leikskólagöngu ákvað hún því að drífa sig í nám til að efla sjálfa sig og halda loforðið. Á þessum tímapunkti tók hún einnig þá ákvörðun um að sama hvað kæmi upp á og sama hvernig námið gengi, þá myndi hún ekki gefast upp. Hún skyldi útskrifast í þetta skiptið og bætir við að hún hafi ekki búist við að henni myndi ganga eins vel og raunin varð.
Að gefast aldrei upp þótt á móti blási
Elfa Dögg kom sjálfri sér á óvart að ná eins góðum árangri og raun ber vitni. Hún jafnaði hæstu meðaleinkunn sem gefin hefur verið á Háskólabrú eða 9,82. Samkvæmt eigin sögn hafi henni aldrei dottið í hug að ná svona góðum árangri í náminu og segir að fyrir hana hafi það verið fjarlægur draumur að útskrifast. „Mér hefur alltaf gengið ágætlega í skóla en það eru ekki svo mörg ár síðan fáir höfðu vonir um að eitthvað myndi rætast úr mér, að útskrifast af Háskólabrú með viðurkenningu sem dúx er því einfaldlega ótrúlegt að mínu mati. Fólk á miserfitt með að læra, ég er frekar heppin að því leytinu til," segir Elfa Dögg. Eins vildi Elfa Dögg koma á framfæri að hún hafi afar gott stuðningsnet og nefnir sérstaklega eiginmann og föður sinn. „Það komu mörg augnablik þar sem mig langaði að hætta en þeir höfðu nógu mikla trú á mér og gáfu mér þann stuðning sem þurfti svo ég gæti haldið áfram," segir Elfa Dögg og bætir við að lykilinn að velgengni er að gefast ekki upp, sama hvað það er, heldur halda áfram að mæta og á endanum smellur allt saman, og vitnar í Dóru vinkona sína sem segir: „Just keep swimming."
„Keilir besta ákvörðun sem ég hef tekið“
Elfa Dögg segist ekki hafa átt margar einingar eftir til að ljúka stúdentsprófi og var ráðlagt þegar hún sótti um hjá Háskólabrú Keilis að kanna jafnframt þann möguleika. En þar sem hún býr í Stykkishólmi vildi hún helst vera í fjarnámi. Þá hafi vinkona hennar útskrifast frá Háskólabrú Keilis og bar skólanum góða söguna. Einnig hafi hún heyrt frá fleirum að fjarnámið væri mjög gott og kennararnir einstaklega hjálpsamir. „Keilir er held ég besta ákvörðunin sem ég hef tekið og sé alls ekki eftir henni. Yndislegur skóli og mun betri en ég þorði að vona,“ segir Elfa Dögg. Þá nefnir hún sérstaklega hversu frábærir kennararnir eru og allt starfsfólk sé tilbúið að hjálpa og vildi minnast sérstaklega á Gísla stærðfræðikennara sem svaraði henni alltaf af virðingu sama hve augljóst vandamálið var. Þá voru námsráðgjafarnir framúrskarandi og skrefi ofar en aðrir sem hún hafði kynnst, voru innan handar varðandi hvað sem var og voru yndisleg í alla staði. Elfa Dögg segir að skólinn haldi vel utan um nemendur sínar og hún sé ennþá að fá aðstoð frá Þóru námsráðgjafa varðandi næstu skref eftir útskriftina.
Elfa Dögg tekur fram að hún myndi sannarlega mæla með Háskólabrú Keilis og sérstaklega fyrir þá sem ætla í fjarnám. Allt starfsfólkið sem hún hefur kynnst virðist njóta vinnu sinnar og sinna henni afar vel. „Ég get verið nokkuð viss um að ég hefði ekki náð þessum mikla árangri án þeirra," segir Elfa Dögg og bætir við: „Það sem stendur helst upp úr fyrir mér er áhuginn sem ákveðnir kennarar hafa fyrir námsefninu, sá áhugi smitaðist yfir á mig og gaf mér allt aðra upplifun en ég hef áður haft á lesáföngum“ og segist alltaf hafa verið sterkari með tölur og útreikninga.
Næstu skref
Elfa Dögg ætlar að halda áfram námi næsta haust og hefur verið samþykkt í viðskiptafræði hjá Háskólanum á Akureyri. Hlakkar hún mikið til og stefnir ótrauð áfram í átt að sínum draumum. Segir hún jafnframt að það sé mikill kostur fyrir hana að geta haldið áfram að stunda fjarnám svo hún þurfi ekki að flytja úr sinni heimabyggð með fjölskylduna. Elfa Dögg vildi að lokum þakka Keili og öllu starfsfólki skólans fyrir þeirra aðkomu að hennar námi og fyrir framúrskarandi vinnubrögð.
Háskólabrú Keilis óskar Elfu Dögg innilega til hamingju með árangurinn og þakkar henni fyrir hlýleg orð í garð skólans og starfsfólks. Það er einstaklega fallegt og aðdáunarvert að Elfa Dögg hafi öðlast kraft til að breyta sorginni í fallega minningu fyrir dóttur sína sem sýnir mikinn styrk og hugrekki. Við erum því sannfærð um að henni verða allir vegir færir og undirstrika ákvarðanir hennar að hluti af velgengni er að gefast aldrei upp.
Háskólabrú Keilis hefst næst 17.ágúst. Hægt er að stunda staðnám og fjarnám til eins eða tveggja ára eða skipuleggja námið eftir því sem hentar hverjum og einum í samráði við námsráðgjafa. Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Keilis https://www.keilir.net/haskolabru/