25.02.2010
Ákveðið hefur verið að ráðast í endurbætur á sjúkrahúsinu á Ásbrú.
Ákveðið hefur verið að ráðast í endurbætur á sjúkrahúsinu á Ásbrú.
Þann 17. febrúar s.l. var boðað til ánægjulegs fundar í Víkingaheimum í Reykjanesbæ. Tilefnið var ákvörðun um
endurbætur á sjúkrahúsinu á Ásbrú í samstarfi Þróunarfélags Reykjanesbæjar og fyrirtækisins Iceland Healthcare.
Er ráðist í þessar framkvæmdir til að fylgja eftir hugmyndum um að skapa hérlendis aðstöðu til bjóða erlendum sjúklingum
að koma hingað og fá bót meina sína.
Hugmyndin að baki þessu hefur lengi verið í umræðu hérlendis en ekkert orðið af fyrr en núna. Við vitum að starfsfólk
íslenskrar heilbrigðisþjónustu þykir einstaklega hæft og vel menntað. Aðstæður á Íslandi þykja góðar með
hliðsjón af öryggi, hreinleika og landfræðilegri legu. Víða erlendis eru biðslistar og þeir langir eftir aðgerðum á tilteknum sviðum.
Til að bregðast við þessum vanda hefur m.a. Evrópusambandið innleitt tilskipun er felur í sér að íbúar innan evrópska
efnahagssvæðisins geta í raun valið sér land til aðgerða að uppfylltum ákveðnum kröfum (verð, gæðavottun o.s.frv.).
Þúsundir Bandaríkjamanna leita sér árlega lækninga utan BNA. Þar skipta gæði þjónustunnar, öryggi og verð
meginmáli. Í þessu liggja tækifæri og á þessum grunni er nú sótt fram.
Samkvæmt áætlunum gætu orðið til allt að 300 störf innan þriggja ára á þessu sviði og skapað tekjur allt að 3,5
milljörðum króna – í beinhörðum gjaldeyri!
Menntun og þjónusta
Heilsuferðaþjónusta snýst ekki bara um að hjúkra sjúklingum. Oftast nær fylgja hverjum sjúklingi/viðskiptavini einn eða fleiri
aðstandenda. Þar liggur einmitt annar hluti þessarar ferðaþjónustu – að sinna fylgifiskum sjúklinganna. Og sannarlega höfum við upp á
ýmislegt að bjóða í okkar frábæru ferðaþjónustu.
Rétt er að leggja þunga áherslu á að hér er um viðtæka þjónustu að ræða. Þjónustu við
sjúklinga fyrir og eftir meðferð sem og þjónustu við aðstandendur. Til þess þarf vel menntað og þjálfað fólk á
öllum sviðum er málið snertir. Hlutverk Keilis í þessu ferli er að verða fyrirtækjunum stoð í uppbyggingu og rekstri – einkum á
þeim sviðum er ekki hefur verið sinnt í skólakerfi okkar. Ekki síst á það við um þjónustustörf ýmis konar en einnig
má nefna önnur svið, s.s. sjúkranudd og aðrar stoðgreinar. Starfsfólk Keilis hlakkar til hins spennandi samstarfs við hina framsæknu aðila og
býður þá velkomna á Ásbrú. Keili er ætlað að starfa náið með þeim fyrirtækjum er hasla vilja sér völl
í nýsköpunarþorpinu Ásbrú. Samstarfið við Iceland Helathcare verður gott dæmi um það hlutverk. Hjálmar Árnason
Gunnhildur Vilbergsdóttir framkvæmdastjóri forstöðukona Heilsuskóla