Fara í efni

Menntunarstig í Reykjanesbæ hefur tvöfaldast á tíu árum

Árni Sigfússon hefur verið stjórnarformaður Keilis frá upphafi
Árni Sigfússon hefur verið stjórnarformaður Keilis frá upphafi

Í nýlegri könnun MMR kemur fram að menntunarstig hefur enn og aftur aukist á milli ára í Reykjanesbæ, en alls höfðu 24% svarenda lokið háskólanámi í október 2017 samanborið 21% í október 2013. Þá hefur hlutfall þeirra sem lokið hafa öðru námi sem og laun einnig hækkað. Þetta hlutfall er loks orðið áþekkt því sem er á höfuðborgarsvæðinu.

Á fyrstu starfsárum Keilis var öðruvísi umhorfs á svæðinu. Þegar Keilir var stofnaður árið 2007 voru einungis um 12% íbúa Reykjanesbæjar með háskólamenntun. Herinn skildi eftir stærstu hópuppsagnir í sögu þjóðarinnar og atvinnuleysi fjölda fólks með góða þekkingu og færni úr atvinnulífinu en litla formlega menntun.

Á þessum árum höfðum við einnig hafið uppbyggingu á betra leik- og grunnskólastarfi. Við vildum mennta börnin upp úr kreppunni. En okkur vantaði í raun alltaf leið til að standa með foreldrum og hjálpa þeim að styrkja menntastöðu sína. Þess vegna var mjög mikilvægt að við tókum þá stefnu þegar herinn fór að við skyldum nýta gamla varnarsvæðið til að smíða plógjárn úr sverðunum, með Keili.

En þetta var ekki sjálfsagt - við þurftum að hugsa hvar áherslurnar ættu að liggja - og þess vegna var Háskólabrú Keilis mikilvæg þar sem hún þjónaði þeim tilgangi að brúa þetta bil á milli grunnmenntunar og framhaldsmenntunar margra foreldra og annarra sem höfðu heltst úr menntalestinni eftir grunnskóla.

Staðreyndin er sú að menntahlutfall í Reykjanesbæ hefur tvöfaldast á tíu árum. Keilir, ásamt öðrum menntastofnunum á öllum skólastigum, á þarna hlut að máli og hefur stuðlað að breyttu náms- og starsfumhverfi á Suðurnesjum. Um þriðjungur þeirra sem hafa lokið Háskólabrú Keilis hafa komið af svæðinu og hafa hátt í 90% þeirra haldið áfram í háskólanám.

Þetta eru oftar en ekki einstaklingar sem hafa ekki fundið sig í hefðbundna skólakerfinu og alls óvíst hvort að þeir hefðu nokkurntíman farið aftur í nám ef þeim hefði ekki staðið til boða öflugt og metnaðarfullt frumgreinanám heima í héraði í Keili og Menntastoðum Miðstöðvar Símenntunar á Suðurnesjum. Þessir einstaklingar hafa oftar en ekki haldið búsetu sinni á Suðurnesjunum að loknu námi og haft þannig jákvæð áhrif á menntunarstig, launaþróun og atvinnutækifæri.

Á þessu ellefta starfsári eru einnig gríðarlega áhugaverð verkefni framundan hjá Keili, sem geta styrkt stöðu menntunar og atvinnulífs okkar enn frekar. Það hefur ekki gerst af sjálfu sér. Það þarf öfluga stjórnendur og starfsfólk Keilis.

Mikilvægasti þátturinn í hvaða skólastarfi sem er, er hinsvegar nemandinn sjálfur. Mælikvarðinn á velgengni skóla hlýtur á endanum alltaf að vera ánægja þeirra nemenda sem hann sækja og hvernig þeir nýta þá þekkingu og reynslu sem þeir fá annað hvort í áframhaldandi námi eða á vinnumarkaðnum.

Við höfum verið einstaklega heppin með þessa blöndu af starfsfólki og viðskiptavinum. Vinsamlegu viðmóti og gagnkvæmri virðingu þeirra sem starfa og nema í Keili. Fólki með góða þekkingu, er hugvitssamt og drífandi og stöðugt að velta við steinum og hugsa nýja hluti. Það er Keilir.

Það eru forréttindi að hafa fengið að stofna þetta félag og taka þátt í mótun þess frá upphafi.

Árni Sigfússon
Stjórnarformaður Keilis